„Handtakið tíkina“

Maria Ressa blaðamaður frá Filippseyjum er stödd á Íslandi þar …
Maria Ressa blaðamaður frá Filippseyjum er stödd á Íslandi þar sem hún tekur þátt í heimsþingi kvenleiðtoga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Henni hefur verið hótað og hún nefnd öllum illum nöfnum. Myndir af henni með myllumerkinu handtakið tíkina, hafa verið birtar á samfélagsmiðlum, henni hefur verið hótað lífláti, fangelsun og nauðgunum. Maria Ressa lætur það ekki stöðva sig í baráttunni fyrir sannleikanum og nú er hún stödd í Reykjavík á heimsþingi kven­leiðtoga í Hörpu

Ástæðan fyrir hótunum í hennar garð er fréttaflutningur hennar og uppljóstrun á fölskum fréttum í heimalandinu Filippseyjum. Maria Ressa hefur starfað við blaðamennsku í yfir 30 ár og í tvo áratugi  starfaði hún við rannsóknarblaðamennsku og erlendar fréttir sem yfirmaður skrifstofu CNN bæði í Manila og Jakarta í Indónesíu. Hún stýrði síðar fréttastofu stærstu sjónvarpsstöðvar Filippseyja, ABS-CBN.

Árið 2012 stofnaði hún ásamt þremur starfssystrum sínum netfréttamiðilinn Rappler og auk fréttaskrifa er Rappler framarlega í baráttunni gegn fölskum fréttum og upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum. Rappler sér meðal annars um staðreyndaathugun fyrir Facebook á Filippeyjum í baráttunni gegn fölskum fréttum.

Forseti Filippeseyja, Rodrigo Duterte, á blaðamannafundi í Manila í dag.
Forseti Filippeseyja, Rodrigo Duterte, á blaðamannafundi í Manila í dag. AFP

Ressa er meðal þeirra blaðamanna sem voru maður ársins 2018 að mati Time tímaritsins. Hún hefur auk þess hlotið fjölmörg verðlaun í blaðamennsku í gegnum tíðina. En núna er hún að verjast í réttarsölum heimalandsins. Verjast ásökunum um brot af ýmsu tagi. Í samtali við mbl.is í dag sagði hún að ef hún verður fundin sek um öll ákæruatriðin þá bíður hennar 63 ára fangelsi. 

Leiðir Ressa og Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, hafa ítrekað legið saman í meira en þrjá áratugi. Fyrsta viðtal hennar við Duterte var í borgarstjóratíð hans í Davao á níunda áratugnum. Árið 2015 tók hún viðtal viðtal við Duterte sem vakti heimsathygli. Á þeim tíma var hann í framboði til forseta og viðurkenndi í viðtalinu að hafa drepið þrjár manneskjur. 

Hins vegar er það ekki fyrr en eftir að Duterte var kjörinn forseti sumarið 2016 að Rappler fór að beina sjónum sínum fyrir alvöru að „nettröllum“ úr stuðningshóp Duterte. Þeir voru duglegir að koma falsfréttum í loftið og hagræða upplýsingum í hag stjórnvalda.

Rappler fór að birta reglulega gagnrýnar fréttir af drápum af fólki án dóms og laga, mannréttindabrotum og hratt hækkandi tölum af mannfalli úr stríði Duterte gegn fíkniefnum. Eins voru birt viðtöl við fólk sem lýsti misnotkun valds og beitingu ofbeldis af hálfu lögreglunnar með góðfúslegu samþykki forseta landsins.

Þær voru í pallborði á heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í …
Þær voru í pallborði á heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í dag. Efri röð: Maria Ressa, Elaine Quijano, Barri Rafferty, Loren Mayor og Courtenay Myers. Neðri röð: Marsha Cooke og Christy Tanner. mbl.is/Kristinn Magnússon

Duterte átti svar við þessu líkt og fleiri stjórnmálamenn hafa gert og sagði fréttaflutning Rappler falskar fréttir. Í kjölfarið var því haldið fram að fjölmiðillinn stundaði skattsvik og var ákæra gefin út aðeins nokkrum mánuðum eftir húsleit hjá miðlinum.

Í nóvember 2018 var gefin út handtökuskipun á hendur Ressa. Daginn eftir kom hún sjálfviljug á lögreglustöð og var látin laus gegn tryggingu. Réttarhöldin standa enn yfir og að sögn Ressa á hún að mæta næst fyrir rétt 6. desember. En hún fékk heimild frá ríkisstjórn Filippseyja til þess að koma til Íslands og taka þátt í umræðum á heimsþingi kvenleiðtoga. Á morgun verður CBS-sjónvarpsstöðin með útsendingu frá Reykjavík þar sem Elaine Quijano ræðir við Mariu Ressa. Hægt er að horfa á streymi CBS News frá heimsþinginu hér.

Í pallborðsumræðunum í dag Fact vs Fiction: How to Earn Credibility in the Misinformation Era Venue var meðal annars rætt um mikilvægi fjölmiðlunar og að blaðamenn haldi vöku sinni. Láti ekki afvegaleiða sig og vera trúir sannfæringu sinni - að upplýsa og birta staðreyndir ekki skáldskap misvitra manna. Að vinna saman með sannleikann að leiðarljósi. 

Auk Ressa tóku þær Barri Rafferty, framkvæmdastjóri Ketchum, Loren Mayor, framkvæmastjóri rekstrar hjá NPR, Courtenay Myers, einn eiganda Latham & Watkins lögmannsstofunnar í New York, Christy Tanner, yfirmaður CBS News Digital og Marsha Cooke, en hún er einn af stjórnendum Vice fréttastofunnar. 

Ressa segir í samtali við blaðamann mbl.is að stríðið sem blaðamenn heyja nú sé af allt öðru meiði en það stríð sem háð er á átakasvæðum. Þá vitir þú hver er óvinurinn en í stríðinu fyrir sannleikanum leynist óvinurinn og þú veist aldrei hvar hann ræðst næst á þig, segir Ressa. Ressa talar af reynslu því hún hefur ítrekað komist í lífshættu á átakasvæðum en nú berst hún líka fyrir lífi sínu og frelsi í þágu sannleikans. 

Ressa segir að nokkur mál séu í gangi gegn henni og Rappler og á sama tíma og sigur vinnst í einu máli er enn óvissa um hver niðurstaðan verður í öðrum. 

„Á Filippseyjum getur verið erfitt að greina á milli staðreynda og skáldskapar en við hjá Rappler neitum að gefast upp og höldum áfram rannsóknarblaðamennsku þó svo það þýði að við erum skotmark yfirvalda,“ segir Maria Ressa. 

AFP

„Ég hef verið blaðamaður í meira en 30 ár og hef aldrei upplifað neitt í líkingu við þetta. Árásir sem ég hef þurft að þola líkt og kemur fram í þætti CSB 60 Minutes um síðustu helgi. Þar sést hvernig áróðursvélinni er beint að mér,“ segir hún í samtali við mbl.is og bætir við að það að vera blaðamaður á Filippseyjum í dag sé verra en að vera blaðamaður á átakasvæðum. Þá sé skotið á þig úr ákveðinni átt og þú veist að minnsta kosti hvaðan skotin koma ólíkt því sem er á öld upplýsingaóreiðu. Hún segir hatrið gríðarlegt, einkum og sér í lagi beinist það að konum í blaðamennsku. „Þú veist aldrei hvaðan árásin kemur, hvort það er satt sem sagt er og þú ert í gríðarlega viðkvæmri stöðu,“ segir Ressa. 

Hún segir að hér spili samfélagsmiðlar og tækniframfarir stórt hlutverk og þetta sé eitthvað sem verði að breytast. Í þrjú ár hafi hún ásamt starfssystkinum hjá Rappler fjallað um ábyrgð stjórnvalda á stríðinu gegn eiturlyfjum sem hefur kostað fleiri tugþúsund Filippseyinga lífið. „Morð eru framin án þess að refsing liggi við,“ segir Ressa. 

„Takk Ísland fyrir að láta ykkur annt um fólkið sem hefur verið drepið í eiturlyfjastríðinu. Ég er miður mín yfir ástandinu á Filippseyjum í dag. Land sem hefur skrifað undir sáttmála um mannréttindi,“ segir Ressa.

Að hennar sögn hafa grunngildi samfélagsins breyst frá því Duterte tók við sem forseti fyrir þremur árum. Þetta sé eitt af því sem fylgir upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum. Árásir gegn sannleikanum byrja í neðstu lögum en halda áfram og fara síðan úr efstu lögum og niður. Þetta sé að gerast í landi þar sem stjórnarskráin geymir ákvæði um tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi. 

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook. AFP

Að sögn Ressa er þetta þróunin víðar þar sem einræðisherrar eru við völd. Þeir noti bandaríska samfélagsmiðla í sína þágu við að dreifa röngum upplýsingum. Til að mynda hafi fjölmörgum fölskum reikningum á Facebook verið lokað á Filippseyjum. Í gegnum þá hafi vísvitandi verið dreift hatursáróðri og fölskum upplýsingum til fólks á Facebook en í pallborðsumræðunum kom fram að stærsti hluti filippseysku þjóðarinnar er á samfélagsmiðlum. 

Greint var frá því í september að lokað hefði verið á aðgang að tugþúsund­um smáfor­rita í gegn­um Facebook eft­ir skoðun sem farið var í í kjöl­far hneykslis­máls­ins vegna Cambridge Ana­lytica.

Guar­di­an greindi frá því í des­em­ber 2015 að Cambridge Ana­lytica hefði nýtt sér per­sónu­upp­lýs­ing­ar  millj­óna manna sem sótt­ar voru í gegn­um smáforrit með spurn­inga­leik sem hannaður var af vís­inda­mann­in­um  dr. Al­eks­andr Kog­an og fyr­ir­tæki hans GSR.

Upp­lýs­ing­arn­ar voru svo notaðar til að láta mis­mun­andi stjórn­mála­aug­lýs­ing­ar birt­ast  not­end­um. Face­book sætti harðri gagn­rýni þegar málið var op­in­berað og segja for­svars­menn fyr­ir­tæk­is­ins aðgerðirn­ar sem gripið var til nú vera niður­stöðu at­hug­un­ar sem hófst á síðasta ári. 

Christy Tanner, Marsha Cooke, Maria Ressa, Barri Rafferty, Courtenay Myers, …
Christy Tanner, Marsha Cooke, Maria Ressa, Barri Rafferty, Courtenay Myers, Loren Mayor og Elaine Quijano. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maria Ressa segir að það sé gott að Facebook og aðrir samfélagsmiðlar eru farnir að bregðast við því falskar fréttir eru svo fljótar að dreifast út um allt í gegnum þessa fölsku reikninga sem tengjast bandamönnum Duterte. 

Að leita sannleikans

Spurð út í hvað sé til ráða segir Ressa að eina vopnið sem blaðamenn eigi er að segja sannleikann. Að leita sannleikans. Á sama tíma viti hún að hatursorðræða getur leitt til ofbeldisverka líkt og ítrekað hefur gerst.

„Á sama neita ég að láta hrella mig. Við munum halda áfram að sinna starfi okkar svo lengi sem stjórnarskráin tryggir okkur réttindi þau sem við krefjumst. Ég held að stærsta vandamál blaðamanna í  dag sé að vita muninn á milli blaðamennsku og aðgerðastefnu. Hér áður gátum við stigið skref aftur á bak en nú er sannleikurinn í skotlínunni. Það er ekki hægt að stíga aftur á bak við verðum að greina hvenær er verið að hagræða sannleikanum og hver það er sem er að gera það. Að við séum ekki misnotuð. Ég hef aldrei á ferli mínum gert annað en að sinna starfi mínu. Nú á ég yfir höfði mér 63 ára fangelsisvist ef við tökum saman öll sakamálin sem hafa verið höfðuð gegn mér. Þetta er brjálæði. Við höfum sé svipað gerast annars staðar í heiminum,“ segir Maria Ressa að lokum við blaðamann mbl.is.

Grein eftir Mariu Ressa á vef CJR

Maria Ressa hlaut nýverið Shorenstein blaðamannaverðlaunin 

 Grein New York Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka