Kona hefur stigið fram sem sakar auðkýfinginn Jeffrey Epstein um að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 15 ára. Hún hvetur Andrew prins til þess að veita meiri upplýsingar um vin sinn.
Konan, sem er 31 árs í dag, er nefnd „Jane Doe 15“ í fjölmiðlum en hún ræddi við fjölmiðla á blaðamannafundi í Los Angeles í gærkvöldi. Þar lýsti hún grimmilegu og ítrekuðu kynferðislegu ofbeldi af hálfu Epstein. Hún er ekki ein þar sem á annan tug kvenna hefur lagt fram skaðabótakröfur í dánarbú Epstein vegna kynferðislegs ofbeldis af hans hálfu. Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa í ágúst eftir að hafa verið ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn barnungum stúlkum.
Í viðtali við BBC um helgina var Andrew ítrekað spurður út í vináttu við Epstein og ásakanir sem Virginia Giuffre hefur lagt fram um kynmök Andrews við hana þegar hún var 17 ára. Því neitaði Andrew í viðtalinu og sagðist hafa verið heima umrætt kvöld en hann hefði fengið sér pizzu þennan sama dag með dóttur sinni. Viðtalið hefur vakið meiri spurningar en svör og sætir prinsinn harðri gagnrýni fyrir framgöngu sína í viðtalinu.
Samkvæmt tilkynningu frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG verður styrkur fyrirtækisins í frumkvöðlaverkefni prinsins, Pitch@Palace, ekki endurnýjaður. Eins hefur fjölmiðlafulltrúi prinsins sagt af sér í kjölfar viðtalsins.
Jane Doe 15 mætti á blaðamannafundinn í gærkvöldi ásamt lögmanni sínum, Gloria Allred. Hún sakar Epstein um að hafa misnotað hana á heimili sínu í Nýju-Mexíkó þegar hún var 15 ára gömul. Var þetta árið 2004 eftir að hún hafði hitt ritara Epstein í skólaferðalagi í New York.
Samkvæmt málshöfðun hennar á ritarinn að hafa tjáð henni að Epstein hefði áhuga á að aðstoða stúlkur frá fátækum heimilum. Flogið var með hana í einkaþotu Epsteins á búgarð hans í Nýju-Mexíkó ásamt nokkrum öðrum ungum stúlkum. Hún segir að hann hafi beðið hana um að nudda sig og síðan beitt hana kynferðislegu ofbeldi.
„Epstein svipti mig sakleysinu kynferðislega,“ sagði Jane Doe 15 á blaðamannafundinum.
Jane Doe 15 sakar ekki Andrew prins um að hafa brotið gegn sér á nokkurn hátt en hvetur hann til þess að veita frekari upplýsingar. „Andrew prins, og allir aðrir þeir sem voru nánir Epstein, ættu að stíga fram og gefa eiðsvarnar yfirlýsingar um þær upplýsingar sem þeir búa yfir,“ sagði Jane Doe á blaðamannfundinum.
Allred segist hafa beðið Andrew prins um að óska sjálfviljugur eftir fundi með alríkislögreglunni (FBI) sem fer með rannsókn sakamálsins í New York og gefa skriflega eiðsvarna yfirlýsingu vegna málsins.