Fleiri árásir en færri dauðsföll

Börn eru oftar en ekki fórnarlömb hryðjuverkaárása.
Börn eru oftar en ekki fórnarlömb hryðjuverkaárása. AFP

Þrátt fyrir að hryðjuverk séu framin í fleiri löndum nú eru mun færri sem deyja í hryðjuverkaárásum, samkvæmt alþjóðlegu hryðju­verka­vísi­töl­unni, Global Terr­orism Index (GTI). Árið 2018 létust 15.952 í slíkum árásum sem er fækkun um 15,2% á milli ára. Árið 2014 létust 33.555 manns í hryðjuverkaárásum í heiminum, flestir í árásum skipulögðum af vígasamtökunum Ríki íslams.

Mest hefur dauðsföllum fækkað í Írak og Sómalíu en í fyrra lýsti herinn í Írak yfir sigri í baráttunni gegn Ríki íslams og í Sómalíu hefur bandaríski herinn barist gegn vígasveitum Shabaad frá því árið 2017.

Í fyrsta skipti frá árinu 2003 er Írak ekki það ríki sem hefur orðið verst úti þegar kemur að hryðjuverkum heldur er Afganistan það ríki þar sem flestir voru drepnir í hryðjuverkaárásum í fyrra. Talibanar hafa þar tekið við af Ríki íslams að vera þau hryðjuverkasamtök sem granda flestum. Alls létust 7.379 í 1.443 árásum talibana í Afganistan en í Írak létust 1.054 í 1.131 árás. Í Nígeríu voru árásirnar 562 talsins í fyrra og fórnarlömbin eru 2.040. 

Í Evrópu var ekki gerð nein stór hryðjuverkaárás í fyrra en 62 létust í árásum vígamanna í álfunni. Árið á undan létust 200 manns í árásum vígamanna. 

Alls var gerð hryðjuverkaárás í 71 landi í fyrra þar sem einhver lést. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert