„Þeir vissu hvað við vorum að gera og hvers vegna,“ sagði Gordon Sondland sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu. Sondland lét þessi orð falla í opnunarræðu sinni, er hann bar vitni fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings vegna rannsóknar þingsins á embættisverkum Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Rannsóknin er til komin vegna meintra tilrauna Trump til að þrýsta á úkraínsk yfirvöld að hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda.
Þessir þeir sem Sondland vísar til í ræðu sinni eru þeir Mike Pompeo utanríkisráðherra og fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafinn John Bolton.
„Það voru allir með í ferlinu. Þetta var ekkert leyndarmál,“ sagði hann. Fulls gegnsæis hefði gætt varðandi þátttöku hans sjálfs í ferlinu og hann hefði verið í góðri trú.
„Yfirstjórn utanríkisráðuneytisins lýsti yfir fullum stuðningi við tilraunir okkar,“ bætti hann við. „Við greindum frá viðleitni okkar og fengum hana samþykkta. Ég man ekki eftir að hafa nokkru sinni heyrt einhver mótmæli.“
BBC segir að Pompeo, sem til þessa hefur náð að skauta fimlega framhjá rannsókninni, hafi með vitnisburði Sondland hins vegar lent í henni miðri.
Í síðustu viku greindi David Holmes, sendiráðsstarfsmaður í bandaríska sendiráðinu í Úkraínu, þinginu frá því að hann hefði orðið vitni af símtali þeirra Sondland og Trump, þar sem forsetinn var að þrýsta á um að Biden yrði tekinn til rannsóknar.
Sondland greindi þinginu einnig frá því að hann hefði sagt úkraínskum stjórnvöld að „ólíklegt væri“ að Bandaríkin myndu reiða af hendi fjárhagsaðstoð fyrr en úkraínsk yfirvöld hefðu sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að Biden yrðu tekin til rannsóknar.
„Þessi öryggisaðstoð skipti varnir Úkraínu miklu máli og það hefði ekki átt að seinka henni,“ sagði Sondland og kvaðst hafa þrýst á um yfirlýsingu varðandi rannsókn til að „rjúfa stífluna“.
„Ég harma að Úkraínumenn hafi verið settir í þessa stöðu, en ég sé ekki eftir að hafa gert það sem ég gat til að rjúfa stíflun og leysa vandann.“
Sondland var einnig spurður út í sms-samskipti sín og Kurt Volker, sem var sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum Úkraínu, og sendiherrans Bill Taylor sem þegar hefur borið vitni.
Taylor skrifaði í skilaboðum til Sondland að Úkraínumenn hafi fengið þær fréttir frá Rudy Giuliani, einkalögfræðingi Trumps, að ekkert yrði af fyrirhuguðum fundi forsetanna í Hvíta húsinu.
„Almáttugur,“ segir Sondland Volker hafa svarað.
Kvað Sondland skilaboðin þá vera sönnun þess að Giuliani hafi átt í samskipum við úkraínsk stjórnvöld „án vitundar þeirra“ [Sonders og Taylors]. Þau samskipti hafi haldið áfram og jafnvel í lok septembermánaðar hafi Pompeo verið að skipa Volker að ræða við Giuliani.