Mislingar hafa orðið næstum 5.000 að bana í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó það sem af er ári. Samkvæmt yfirvöldum þar í landi nær faraldurinn nú til allra umdæma landsins.
Alls hafa 250.000 manns veikst á árinu og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO er um að ræða stærsta og hraðskreiðasta faraldur heims.
Mislingar hafa orðið rúmlega tvöfalt fleiri að bana en ebóla á síðustu fimmtán mánuðum og settu stjórnvöld í samstarfi við WHO af stað neyðarbólusetningaáætlun í september, þar sem til stóð að bólusetja 800.000 börn gegn sjúkdómnum.
Lélegir innviðir, árásir á heilbrigðisstofnanir og slæmt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafa hins vegar komið í veg fyrir að hægt sé að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins.
Fjórar milljónir barna hafa þegar verið bólusettar, en sérfræðingar benda á að það sé innan við helmingur allra barna í landinu og að ekki sé til nóg bóluefni til að bólusetja þau öll. Meirihluti þeirra sem smitast af mislingum í Kongó eru smábörn.