Bann hefur verið sett við öllum aftökum fanga sem sitja í alríkisfangelsum eftir að dómari úrskurðaði að vafi léki á lagalegri heimild fyrir aftökunum. BBC greinir frá.
Bandarísk alríkisyfirvöld fyrirskipuðu í sumar að dauðarefsingar verði framkvæmdar á ný eftir 16 ára hlé. Tilkynningin kom frá dómsmálaráðuneytinu þegar dómsmálaráðherrann William Barr sagðist í yfirlýsingu hafa fyrirskipað fangelsismálastofnun að setja á dagskrá aftökur fimm fanga.
Fimmmenningarnir sitja í alríkisfangelsum í Indiana-ríki og stóð til að taka þá af lífi í desember og janúar. Dómari úrskurðaði hins vegar nýlega að véfenging á aftökuaðferðinni í máli fjögurra mannanna fengist líklega staðfest.
Sagði dómarinn Tanya S. Chutkan að fjórmenningarnir yrðu fyrir „óbætanlegum skaða“ væru þeir teknir af lífi án þess að dómstóll hlýddi á mál þeirra. Gagnrýni mannanna snýst um að aftakan fari fram með banvænni sprautu. Aftöku í máli fimmta mannsins var frestað með öðrum úrskurði í síðasta mánuði.
78 manns voru dæmdir til dauða í Bandaríkjunum á árabilinu 1988 — 2018, en einungis þrír hafa verið teknir af lífi á þessu tímabili. 62 fangar, sem alríkisyfirvöld hafa dæmt til dauða, sitja í fangelsi í dag. Kom þessi óformlega frestun sem verið hefur í gildi frá 2003 til eftir að dómstólar úrskurðuðu trekk í trekk gegn aftöku með banvænni sprautu sem hefur verið algengasta aðferðin.
Barr fyrirskipaði hins vegar í sumar fangelsismálastofnun að taka upp viðauka sem heimilar að lyfið Pentobarbital verði notað eitt og sér við aftökur, í stað þriggja lyfja sem áður voru notuð við aftökur. Pentobarbital er áhrifamikið róandi lyf sem hægir á líkamsstarfseminni, m.a. taugakerfinu, og getur þannig slökkt á allri líkamsstarfsemi.
Pentobarbital er líka eitt þeirra lyfja sem eru í áðurnefndum lyfjakokteil.
Chutkan sagði það hins vegar vera brot á alríkislögum að fangar á dauðadeild alríkisfangelsa væru teknir af lífi með öðrum hætti en fangar í ríkisfangelsum í sama ríki, sem í þessu tilfelli er Indiana.