Gerðu minna úr áhættu legganganets en ástæða var til

Lækn­ar víða um heim hafa grætt net í leggöng kvenna …
Lækn­ar víða um heim hafa grætt net í leggöng kvenna og er John­son & John­son stærsti fram­leiðandi þeirra. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ástralskur dómstóll úrskurðaði í dag að lækningavöruframleiðandinn Johnson & Johnson hefði gerst sekur um vanrækslu með því að setja á markað legganganet án þess að gerðar hefðu verið á því viðeigandi prófanir, eða viðvaranir veittar um að efnið í net­un­um gæti skroppið sam­an og harðnað inni í lík­ama sjúk­lings­ins.

Dómurinn kann að opna á milljóna dollara skaðabótakröfur gegn fyrirtækinu.

Dómarinn, Anna Katzmann, staðfesti með dómi sínum kæru rúmlega 1.000 kvenna sem segja aukaverkanir legganganetsins hafa valdið sér miklum kvölum.

Hverjar endanlegar skaðabætur verða liggur ekki fyrir og verður ekki tilkynnt fyrr en á næsta ári. Í dóminum segir hins vegar að fyrirtækin þrjú sem tilheyra Johnson & Johnson hafi flýtt sér svo að koma netinu á markað að ekki hafi verið gerðar á því viðeigandi prófanir og eins hafi verið gert minna úr áhættunni sem sé því samhliða en efni voru til.

„Áhættan var þekkt, hún var ekki lítil og að því er fram kemur í vitnisburði verjenda gat hún valdið umtalsverðum og alvarlegum skaða,“ sagði dómarinn. Ástæða hefði verið til að fara mun varlegar í sakirnar.

Lögfræðingar kvennanna segja netið hafa valdið þvagleka, sýkingum og viðvarandi sársauka, auk fjölda annarra vandamála. „Þetta er búið að vera löng ferð í leit að réttlæti fyrir margar þeirra kvenna sem upplifðu að gallað legganganet og band við þvagleka [innsk. net sem gert er úr sams konar efni] eyðilagði líf þeirra,“ sagði Rebecca Jancauskas, einn lögfræðinga kvennanna í hópmálsókninni.

Tugir þúsunda sambærilegra dómsmála gegn framleiðendum slíkra neta bíða nú meðferðar dómstóla í Bandaríkjunum.

Fyrr á þessu ári féllst Johnson & Johnson á að greiða 117 milljónir Bandaríkjadala til að halda sumum málanna utan dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert