Úkraínskum stjórnvöldum var kunnugt um tafir á greiðslu vegna hernaðaraðstoðar mun fyrr en Hvíta húsið hefur haldið fram til þessa. Þetta kom fram í vitnisburði Laura Cooper, starfsmanns bandaríska varnarmálaráðuneytisins, fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings vegna rannsóknar þingsins á embættisverkum Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Segir Guardian vitnisburð Cooper grafa undan vörn Donald Trump Bandaríkjaforseta, en rannsóknin er til komin vegna meintra tilrauna Trump til að þrýsta á úkraínsk yfirvöld að hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda.
Að sögn Cooper lýstu úkraínsk yfirvöld yfir áhyggjum af að fjárhagsaðstoðin hefði ekki borist sama dag og umdeilt símtal Trump við Volodomír Zelenskí Úkraínuforseta átti sér stað. Sagði hún starfsfólk deildar sinnar hafa fengið tölvupóst frá utanríkisráðuneytinu 25. júlí þar sem fram kom að úkraínska sendiráðið og utanríkismálanefnd fulltrúadeildar þingsins væru að spyrja um greiðsluna.
Þann dag fór Trump fram á það við Zelenskí að úkraínsk yfirvöld veittu bandarískum stjórnvöldum þann „greiða“ að taka Biden til rannsóknar. Vörn Hvíta hússins hefur til þessa falist í því það hafi ekki verið fyrr en mun síðar sem úkraínskum yfirvöldum var kunnugt um frestun greiðslunnar.
„Þann 25. júlí fékk einn starfsmanna minna fyrirspurn frá úkraínska sendiráðinu þar sem spurt var hvað væri að gerast með öryggisaðstoðina,“ sagði Cooper. „Við vissum ekki á þeim tíma hver stefnan var [...] Mér var sagt að starfsmaðurinn hefði sagt úkraínska embættismanninum að þetta væri allt í gangi, en mælt var með að úkraínska sendiráðið kannaði málið hjá utanríkisráðuneytinu.“
Sagði Cooper áhyggjur hafa verið uppi um að hætt hefði verið við fjárhagsaðstoðina.