Milljón safnast fyrir kóalabirni í vanda

20.000 manns hafa lagt söfnuninni lið.
20.000 manns hafa lagt söfnuninni lið. AFP

Milljón áströlskum dollurum hefur verið safnað í netsöfnun til aðstoðar kóalabjörnum sem slasast hafa í miklum skógareldum sem nú geisa í austurhluta Ástralíu.

Um er að ræða hæstu upphæð sem safnast hefur í ástralskri netsöfnun það sem af er ári, en upphæðin samsvarar um 84 milljónum íslenskra króna.

Dýralífssérfræðingar áætla að um 100 kóalabirnir hafi þegar orðið eldinum að bráð í Nýju Suður-Wales.

Það var Port Macquarie-kóalaspítalinn sem hrinti söfnuninni af stað á vef GoFundMe til þess að safna fyrir uppsetningu vatnsstöðva fyrir villta kóalabirni. Ekki leið á löngu þar til safnast höfðu milljón ástralskir dollarar. 20.000 manns hafa lagt söfnuninni lið, en upphaflega var markið sett við 25.000 dollara.

Um 700 netsöfnunum hefur verið hrundið af stað í tengslum við skógareldana í Ástralíu og hafa samtals safnast um 2 milljónir. Næstmest hefur safnast fyrir slökkviliðsmenn og þá sem hafa um sárt að binda vegna eldanna.

Sex eru látnir í skógareldunum og hafa hundruð heimila orðið skógareldunum að bráð síðan þeir hófust í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka