Segir Andrew eiga að að bjóða lögreglu aðstoð

Andrew Bretaprins. Lögfræðingur nokkurra fórnarlamba Jeffrey Epstein vill að prinsinn …
Andrew Bretaprins. Lögfræðingur nokkurra fórnarlamba Jeffrey Epstein vill að prinsinn bjóði lögreglu samstundis aðstoð sína og án nokkurra skilyrða. AFP

Andrew Bretaprins ætti að gefa bandarískum lögregluyfirvöldum kost á að yfirheyra hann. Þetta er mat lögfræðings eins fórnarlamba auðkýfingsins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein.

Greint var frá því í gær að Andrew ætlaði að draga sig í hlé frá öll­um op­in­ber­um skyldu­störf­um á veg­um bresku kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar um „fyr­ir­sjá­an­lega framtíð“ vegna tengsla sinna við barn­aníðing­inn Jef­frey Ep­stein. Þá lýsti prinsinn því enn fremur yfir að hann myndi aðstoða lögreglu við rannsókn sína „væri þess krafist“.

Lögfræðingurinn Gloria Allred dregur hins vegar í efa þessa yfirlýsingu Andrews og hvatti hann til að setja sig í samband við bandarísk yfirvöld hið fyrsta og án nokkurra skilyrða.

Sagði Allred í samtali við BBC að þótt hún væri „ánægð“ með samstarfsvilja prinsins væri yfirlýsing hans nokkuð óljós.

„Er hann að segja að hann muni bera vitni fái hann stefnu um slíkt, eða er hann viljugur til að ræða við lögregluyfirvöld án þess að lagaleg krafa sé uppi um slíkt?“ spurði Allred.

„Skjólstæðingar mínir, sem eru fórnarlömb Jeffrey Epstein, hafa rætt við lögregluyfirvöld án kröfu um að gera það.“

Allred hefur farið með mál þekktra bandarískra kvenna gegn þekktum einstaklingum á borð við Donald Trump Bandaríkjaforseta, kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein, gamanleikarann Bill Cosby og tónlistarmanninn R Kelly.

Segir Allred tvo möguleika í stöðunni gefi prinsinn lögregluyfirvöldum ekki kost á viðtali. Annar felur í sér rannsókn á því hvort tilefni sé til að ákæra einhvern annan í tengslum við mál Epstein, en hinn felur í sér einkamálakröfu líkt og þá sem Allred lagði fram í vikunni fyrir hönd konu sem fullyrðir að Epstein hafi misnotaði hana kynferðislega þegar hún var 15 ára.

„Ég hef ekki enn þá ákveðið hvort að við þurfum á vitnisburði prinsins að halda,“ sagði Allred.

Þá sagði hún viðtal sem prinsinn veitti í fréttaskýringaþættinum Newsnight um helgina vegna kynna sinna af Epstein hafa valdið sumum skjólstæðingum sínum uppnámi, þar sem hann sýndi lítil merki um samúð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka