Elísabet Bretadrottning og Karl Bretaprins voru sammála um að Andrés Bretaprins yrði að segja sig frá opinberum skyldustörfum eftir viðtal hans við BBC um kynni sín af auðkýfingnum og barnaníðingnum Jeffrey Epstein.
Norska ríkisútvarpið NRK segir þau hafa verið sammála um að þetta yrði að gerast til verja konungsfjölskylduna.
Andrés tilkynnti á miðvikudag að hann myndi draga sig í hlé frá öllum opinberum skyldustörfum á vegum bresku konungsfjölskyldunnar um „fyrirsjáanlega framtíð“ vegna tengsla sinna við Epstein.
Segja breskir fjölmiðlar það hafa verið drottninguna sem ræddi málið við Karl áður en tilkynningin var send út. Segir Evening Standard Karl hafa átt mikinn þátt í ákvörðuninni og greina aðrir breskir miðlar frá málinu með svipuðum hætti. Er fyrirsögn fréttarinnar raunar sú að drottningin hafi orðið að reka Andrés til að bjarga konungsfjölskyldunni.
Í yfirlýsingunni sem Andrés sendi frá sér kom fram að tengsl hans við Epstein hafi haft mjög truflandi áhrif á konungsfjölskylduna.
Andrés neitaði því í viðtalinu, sem hefur hlotið mikla gagnrýni í breskum fjölmiðlum, að hafa haft kynmök við unglingsstúlku á árum áður, en konan hefur sjálf sagt að Epstein hafi fyrirskipað henni að hafa mök við prinsinn er hún var 17 ára gömul. Hann sagðist raunar ekki muna eftir því að hafa nokkurn tíma hitt konuna, en þó er til mynd af þeim tveimur saman á heimili Ghislaine Maxwell, sem var vinkona Epstein.
Þá sagðist Andrés sjá eftir „vanhugsuðu sambandi“ sínu við Jeffrey Epstein og segir að sjálfsmorð hans hafi skilið eftir margar spurningar, sérstaklega fyrir fórnarlömb níðingsverka hans. Hann segist hafa mikla samúð með öllum sem hafi orðið fyrir áhrifum af gjörðum Epstein.