Teiknimyndasaga um blaðamanninn og spæjarann Tinna, árituð af bandaríska tunglfaranum Buzz Aldrin, seldist á 33.800 evrur jafnvirði um 4,6 milljóna íslenskra króna, á uppboði í París í dag.
Fram kemur í frétt AFP að það sé þrisvar sinnum hærra verð en gert hafði verið ráð fyrir.
Bókin sem um ræðir fjallar um ævintýri Tinna á tunglinu en hún kom út nokkrum árum áður en Neil Armstrong og Buzz Aldrin lentu tunglfarinu Erninum á yfirborði tunglsins og stigu fæti þangað fyrstir manna.
„Fyrstu tunglfararnir á eftir Tinna,“ skrifaði Aldrin í bókina.