Boeing-þota í ljósum logum í háloftunum

Eldur kviknaði í væng flugvélar Philippines Airlines skömmu eftir flugtak …
Eldur kviknaði í væng flugvélar Philippines Airlines skömmu eftir flugtak frá Los Angeles. Mynd úr safni. AFP

Eldur kviknaði í væng flugvélar Philippines Airlines, stærsta flugfélags Filippseyja, skömmu eftir flugtak frá Los Angeles. Þotunni, sem er af gerðinni Boeing 777, var snúið við og lent heilu og höldnu. 

Flugstjórinn var óhemjurólegur þegar hann tilkynnti eldinn með alþjóðegu neyðarkalli í talstöðvakerfi til flugturnsins. „Mayday, mayday, mayday,“ sagði flugstjórinn áður en hann óskaði eftir því að fá að lenda vélinni. 342 farþegar voru um borð og varð þeim ekki meint af. 

„Við heyrðum fjóra háværa hvelli og það voru sprengingar,“ segir einn farþegi þotunnar í samtali við BBC. Á myndskeiðinu hér að neðan má greinilega sjá blossa í öðrum væng vélarinnar. 

Farþegarnir voru fluttir um borð í aðra flugvél sem flutti þá á áfangastað til Filippseyja. Flestir tóku eldsvoðanum með stóískri ró og er það ekki síst snörum en yfirveguðum viðbrögðum flugstjórans að þakka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert