Hótaði uppsögn en var klappað lof í lófa

Annegret Kramp-Karrenbauer, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi, hótaði að segja …
Annegret Kramp-Karrenbauer, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi, hótaði að segja af sér, nyti hún ekki stuðnings flokksmanna. Stuðninginn fékk hún í formi standandi lófataks. AFP

Annegret Kramp-Karrenbauer, arftaki Angelu Merkel sem formaður Kristilegra demókrata í Þýskalandi, hótaði að segja af sér á landsþingi flokksins sem hófst í gær. 

„Ef þið eruð þeirrar skoðunar að það Þýskaland sem ég vil sé ekki það sem þið viljið skulum við binda enda á þetta hér og nú. En, kæru vinir, ef þið viljið þetta Þýskaland, ef þið viljið fara þessa leið með mér […] brettum þá upp ermar og hefjumst handa,“ sagði Kramp-Karrenbauer. 

Frá því hún tók við embættinu hefur hún sætt mikilli gagnrýni sökum slaks gengis flokksins í síðustu sveitar- og sambandsríkjakosningum í Þýskalandi. Þá hefur Kramp-Karrenbauer sjálf ekki notið mikilla vinsælda. 

Ræða Kramp-Karrenbauer ýtti við flokksmönnum og virðist hafa þjappað þeim saman því Kramp-Karrenbauer uppskar standandi lófatak sem varði í að minnsta kosti þrjár mínútur. 

Merkel kvaddi sér einnig hljóðs en var heldur hófstillt og kallaði eftir frekari samstöðu í flokknum. Merkel tók við sem leiðtogi flokksins árið 2000 og kansl­ari 2005. Kristilegir demókratar eru enn þá stærsti flokkurinn í Þýskalandi, þrátt fyrir slakt gengi undanfarið, og gæti Kramp-Karrenbauer orðið næsti kanslari, en kjörtímabili Merkel lýkur í desember 2021.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á landsþingi Kristilegra demókrata sem hófst …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á landsþingi Kristilegra demókrata sem hófst í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert