Fragtskipi með 14.000 kindum um borð hvolfdi

14.000 kindur og 22 skipverjar voru um borð í fragtskipinu …
14.000 kindur og 22 skipverjar voru um borð í fragtskipinu þegar því hvolfdi. Skjáskot/ISU Constanta

Fragtskipi með fjórtán þúsund kindum um borð hvolfdi undan ströndum Rúmeníu í morgun. Björgunarmenn vinna í kapp við tímann við að bjarga dýrunum. 22 skipverjar voru um borð, allt Sýrlendingar, og var þeim öllum bjargað. 

Fragtskipinu Queen Hind hvolfdi skömmu eftir að hafa lagt frá bryggju í Midia, nálægt borginni Constanta við strandlengju Svartahafsins. Leið skipsins lá til Jeddah í Sádi-Arabíu. 

Lögregla, slökkvilið og rúmenska strandgæslan sinna björgunarstarfi og tekist hefur að bjarga fjölda kinda sem voru á svamli í sjónum en óttast er að meirihluti kindanna hafi drukknað. 

Einn skipverjanna var fluttur á spítala sökum ofkælingar. „Hann féll í sjóinn en var bjargað mjög fljótt,“ segir Stoica Anamaria, talsmaður viðbragðsaðila í Constanta. 

Fragtskipið var smíðað árið 1980, er 85 metrar á lengd og burðargeta þess er 3.785 tonn. 

Ekki liggur fyrir hvað olli því að skipið hvolfdi. Rannsókn á orsökum slyssins mun hefjast þegar björgunaraðgerðum lýkur.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert