Mannréttindabrot í boði yfirvalda

José Adrián var fjórtán ára gamall þegar hann var handtekinn …
José Adrián var fjórtán ára gamall þegar hann var handtekinn af lögreglu og pyntaður. Ljósmynd Amnesty International

José Adrián var á leiðinni heim úr skólanum þegar hann gekk fram hjá hópi stráka í slagsmálum. Lögreglan kemur á vettvang og grjóti er kastað í lögreglubílinn. Enginn hefur viðurkennt að hafa kastað grjótinu en þegar José Adrián heldur áfram för sinni er hann handtekinn og barinn af lögreglu. Honum er troðið inn í lögreglubílinn og traðkað á höfði hans. Hann hlýtur áverka á hálsi. 

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar var hann handtekinn fyrir skemmdarverk og að hafa valdið skemmdum á lögreglubifreiðinni. Farið er með José Adrián í fangaklefa sveitarfélagsins Chemax. Þar er hann handjárnaður og hengdur upp á krók í loftinu eða hátt upp á vegg, José gerði sér ekki grein fyrir hvort var. Þrýst var á hann að játa sök — að hann bæri ábyrgð á skemmdunum á lögreglubílnum. Eins sakaði lögreglan hann um að hafa verið með maríjúana í bakpokanum en gat samt ekki sýnt fram á fíkniefnin. Þetta er 25. febrúar 2016 og José Adrián er 14 ára gamall. 

Foreldrar José Adrián ná samkomulagi við lögreglu um að greiða 3.200 pesóa, sem svarar til 22 þúsund króna, til að standa straum af kostnaði vegna skemmda á lögreglubílnum og í sekt. Fjölskyldan átti ekki svo mikið handbært fé þannig að yfirvöld samþykktu að heimila þeim að greiða skuldina með afborgunum. Eftir að samkomulagið var undirritað fékk José Adrián að losna úr haldi. Mál José Adrián er hluti af alþjóðlegri her­ferð Am­nesty In­ternati­onal þar sem þrýst er á stjórn­völd víða um heim.

AFP

Á vef Íslandsdeildar Amnesty International kemur fram að José Adrián hafi fyrir tilviljun lent í lokum átaka milli hópa ungmenna sem enduðu með skemmdum á lögreglubíl.

„Lögregla handtók José Adrián einan, án skýr­inga, og hafði ekki samband við foreldra hans. Hand­töku hans svipar til algengra aðferða lögregl­unnar í Mexíkó, sem beinir spjótum sínum að fátæku fólki og jaðar­hópum. Í þessu tilfelli var það ungur frum­byggjastrákur.

Lögreglu­menn þvinguðu José Adrián inn í lögreglubíl og keyrðu hann á lögreglu­stöðina þar sem hann var látinn hanga í hand­járnum. „Þeir skildu mig eftir þarna í næstum hálf­tíma,“ segir hann. „Þeir börðu mig í bringuna. Síðan slógu þeir mig í andlitið.“

Til að fá son sinn leystan úr haldi þurftu foreldrar José Adriáns að borga fyrir skemmd­irnar á lögreglu­bílnum og að auki sekt sem var hærri en þau höfðu efni á. José Adrián hætti í skóla vegna atviksins.

José Adrián vill ljúka þessum kafla í lífi sínu og er byrj­aður að skipu­leggja fram­tíðina. Lögreglu­menn­irnir sem réðust á hann hafa ekki enn sætt refs­ingu og fjöl­skyldan bíður enn eftir að stjórn­völd grípi til aðgerða í málinu,“ segir á vef Amnesty um mál José Adrián.

Námsörðugleikar væntanlega heyrnarskerðing

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International var foreldrum José Adrián tjáð þegar hann var í leikskóla að hann þyrfti sérstakan stuðning vegna námsörðugleika. Án þess að það væri útskýrt frekar og hann fór aldrei í formlega greiningu á vandanum, José Adrián á erfitt með að skilja fólk og er jafnvel heyrnarskertur. En það hefur aldrei verið kannað og nauðsynlegt að hann fái greiningu sérfræðinga þar um og viðeigandi stuðning. 

José Adrián er frá smábænum X-Can í Chemax. Alls búa um fimm þúsund manns í bænum og eru flestir þeirra Mayar. Skemmdarverk, ofbeldi og fíkn eru vandamál sem herja mjög á bæjarbúa. 

Gerræðislegar handtökur eru nánast daglegur viðburður í Mexíkó og oft upphafið að alvarlegum mannréttindabrotum eins og pyntingum og annarri illri meðferð líkt og var í tilviki José Adrián. Í sumum tilvikum hverfa viðkomandi og aftökur án dóms og laga eiga sér stað. 

Rannsókn Amnesty International leiddi í ljós að ástæðan fyrir því að fólk er handtekið í tengslum við saknæmt athæfi er ekki endilega tengd viðkomandi glæp heldur miklu frekar því að viðkomandi tilheyrir hóp sem er ítrekaður beittur mismunun. Ekki síst ungir fátækir menn. 

José Adrián er einn þeirra. Drengur sem var vanur því að hjálpa pabba sínum við að selja blóm í Cancún, fara á ströndina með félögum sínum og horfa á kvikmyndir. Hann dreymir um að verða kokkur þegar hann er orðinn stór en eftirlætismaturinn hans er spagettí sem mamma hans býr til. Hann langar til að byggja tvö hús, annað í Cancún og hitt í X-Can. Hann á sér drauma eins og flest ungmenni. 

Biður um réttlæti 

Fjölskylda hans lagði fram formlega kvörtun til Mannréttindaráðs Yucatan-ríkis með stuðningi frá mannúðarsamtökunum Indignación. Amnesty International hefur síðan þá unnið með Indignación við að þrýsta á rannsókn á máli José Adrián og meðferðinni á honum. Eftir handtökuna þorði José Adrián ekki annað en að flytja tímabundið að heiman því í smábæ sem X-Can fréttist allt og hann varð fyrir áreitni vegna málsins. Hann hætti í skóla á sama tíma. Hann er nú kominn heim að nýju og líður miklu betur heima hjá foreldrum sínum. 

Móðir hans segir að það eina sem hún biðji um sé réttlæti. Að lögreglan hætti að brjóta á þeim líkt og gerðist í tilviki José Adrián og eins börnum systra hennar. „Ég tilkynnti hvað þeir gerðu því ef ég geri það ekki er hætta á að þeir skaði önnur börn líkt og þeir gerðu við hann,“ segir í gögnum Amnesty International um mál José Adrián. 

Á hverju ári í kring­um alþjóðlega mann­rétt­inda­dag­inn 10. des­em­ber safn­ast millj­ón­ir bréfa, korta, SMS-ákalla og und­ir­skrifta í gegn­um alþjóðlegu mann­rétt­inda­sam­tök­in Am­nesty In­ternati­onal þar sem skorað er á stjórn­völd að gera um­bæt­ur í mann­rétt­inda­mál­um.

„Þessi ein­staki sam­stöðumátt­ur skil­ar raun­veru­leg­um breyt­ing­um í lífi þeirra sem minnst mega sín. Á hverju ári eru sam­viskufang­ar leyst­ir úr haldi, fang­ar hljóta mannúðlegri meðferð, þolend­ur pynd­inga sjá rétt­læt­inu full­nægt, fang­ar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri lög­gjöf breytt,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá Am­nesty á Íslandi.

Hér er hægt að lesa um mál­in og skrifa und­ir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert