Rannsakandi í rannsóknarteymi Efnavopnastofnunarinnar í hollensku borginni Haag, lýsir því í tölvupósti sem Wikileaks hefur birt, að niðurstöðum rannsóknar á vettvangi meintrar efnavopnaárásar í sýrlensku borginni Douma í fyrra, hafi verið breytt.
Wikileaks birti tölvupóstinn í gærkvöldi í samvinnu við Stundina, La Repubblica, Der Spiegel og Mail on Sunday.
Segir í tölvupóstinum að niðurstöður skýrslu stofnunarinnar hafi verið villandi að mati höfundar, en þær niðurstöður voru grundvöllur þess að Bandaríkin, Bretland og Frakkland hófu loftárásir á svæði undir stjórn Bashar al-Assads Sýrlandsforseta.
Efnavopnastofnunin sendi sérfræðiteymi til að rannsaka ásakanir um efnavopnaárásina á Douma sem gerð var 7. apríl á síðasta ári. Höfundur tölvupóstsins var í því teymi og heldur hann því fram að bráðabirgðaskýrsla sem stofnunin gaf út, hafi gefið ranga hugmynd af uppgötvunum teymisins á vettvangi.
Höfundur tölvupóstsins segir að í skýrslunni hafi verið snúið upp á staðreyndir ásamt því að mikilvægar upplýsingar hafi verið felldar úr skýrslunni.
Umrædd efnavopnaárás var eignuð sýrlenska stjórnarhernum, meðal annars á grundvelli frásagna uppreisnarsveita, og var árásin notuð til að réttlæta loftárásir, Breta, Frakka og Bandaríkjamanna á svæði sýrlenskra stjórnvalda þann 14. apríl 2018. Rannsóknarteymi Efnavopnastofnunarinnar hafði ekki fengið aðgang að vettvangi árásarinnar þegar loftárásirnar voru framkvæmdar og höfðu því ekki hafið rannsókn sína.
Fullyrt er að 49 hafi látist og yfir 600 manns veikst í árásinni, en þegar rannsóknarteymið fékk aðgang að vettvangi voru mikilvæg sönnunargögn ekki lengur aðgengileg.
Í lok tölvupóstsins fer höfundur þess á leit að fá að bæta athugasemdum sínum við útgefna skýrslu, en samkvæmt Stundinni var ekki orðið við því.