Öryggislögregla í Írak skaut á mótmælendur í suðurhluta Írak í dag og í gærkvöldi. Hið minnsta fimm eru látnir og hátt í 100 slasaðir.
Mótmælin hófust 1. október vegna hömlulausrar spillingar og atvinnuleysis í landinu, en öryggissveitir stjórnvalda tóku hart á mótmælendum og hafa að minnsta kosti 300 látið lífið og þúsundir slasast.
Mótmælendur kveiktu í fyrir utan opinberar byggingar í dag, lokuðu götum og brúm og einnig skólum í borginni Nasiriya, um 300 kílómetrum suður af Baghdad. Í gærkvöldi þurfti að rýma spítala í borginni eftir að táragas barst inn í bygginguna.
Þá hafa mótmælendur nærri borginni Basra lokað hraðbrautinni sem liggur að höfninni Umm Qasr sem er ein helsta rás matar, lyfja og annarra innflutningsvara í landið.
Adel Abdul, forsætisráðherra Íraks, tók við embætti fyrir rúmlega ári síðan. Hann hefur lagt til ýmsar umbætur og endurskipað ríkisstjórn sína, en það hefur ekki nægt til að lægja mótmælaöldurnar í landinu.