Lögmenn Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu sem sagði af sér í síðustu viku eftir að Samherjamálið komst í hámæli, og lögmenn ACC, spillingarlögreglu Namibíu tókust á fyrir dómara í dag um varðhald sem Esau var hnepptur í í gær.
Óskuðu lögmenn stofnunarinnar eftir fresti til miðvikudags til að skila gögnum í tengslum við kröfu Esau um að vera sleppt úr haldi. Samkvæmt frásögn namibíska miðilsins The Namibian á Twitter féllst dómarinn á beiðni lögmanna stofnunarinnar að hluta og var réttarhöldunum frestað til þriðjudags.
Esau er einn þeirra fjögurra sem voru ofarlega í valdakerfinu í Namibíu og eru sagðir tengjast mútugreiðslum. Leitar lögreglan nú hinna þriggja, en þeir hafa verið þekktir sem hákarlarnir.
Hákarlarnir þrír eru þeir James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarfélagsins Fishcor, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Esau og náfrændi James.
Uppfært: Í upphaflegri frétt var sagt að ACC hefði fengið frest til miðvikudags. Hið rétta er að frestur var veittur til þriðjudags.
Update: Judge Hannelie Prinsloo has adjourned the hearing of Esau's urgent application to consider the respondents' request for a postponement. #Fishrot #EsauArrest pic.twitter.com/GzoNwP31ph
— The Namibian (@TheNamibian) November 24, 2019