Talsmaður bandaríska sjóhersins segir að þar líti menn ekki á Twitter-færslu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem skipun og halda áformum sínum til streitu um að reka sérsveitarmann úr sjóhernum.
Edward Gallagher er fertugur en hann hefur verið í sérsveit bandaríska sjóhersins undanfarin fimmtán ár. Hann var sýknaður af ásökunum um að hafa stungið særðan fanga úr röðum Ríkis íslams til bana fyrir tveimur árum.
Hann var hins vegar fundinn sekur um að hafa setið fyrir á mynd með líkinu ásamt öðrum sérsveitarmönnum.
Sjóherinn rannsakar mál Gallagher og þriggja annarra og gætu þeir átt á hættu á að verða reknir úr sveitinni. Forsetinn sagði hins vegar á Twitter að sjóherinn muni ekki reka Gallagher úr sérsveitinni.
The Navy will NOT be taking away Warfighter and Navy Seal Eddie Gallagher’s Trident Pin. This case was handled very badly from the beginning. Get back to business!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 21, 2019
Richard Spencer, yfirmaður bandaríska sjóhersins, segir að þar muni menn ekki hætta rannsókn á Gallagher nema formleg skipun þess efnis komi frá forsetanum. Twitter-færslur forsetans telur Spencer ekki formlega skipun.