Vara við Netflix-svindli i Noregi

SMS-skilaboð á lýtalausri norsku bárust Ninu Magnussen og var hún …
SMS-skilaboð á lýtalausri norsku bárust Ninu Magnussen og var hún þar beðin að endurtaka síðustu greiðslu til Netflix eða smella á viðlagðan hlekk til að uppfæra greiðsluupplýsingar. En oft er flagð undir fögru skinni og Magnussen lét ekki blekkjast. Fjölmiðlafulltrúi Netflix segir efnisveituna taka málinu grafalvarlega. Skjáskot/SMS-skilaboð til Ninu Magnussen

„Fyrst hélt ég að þetta væri ekta,“ segir Nina Magnussen í samtali við norska dagblaðið VG og segir frá netsvindltilraun sem hún og fjölskylda hennar lentu í, svokölluðu phising eða vefveiðum sem gengur meðal annars út á að notanda einhverrar vefrænnar þjónustu er sendur hlekkur sem á að líta út fyrir að koma frá þjónustuaðilanum en gerir það ekki og opnar þeim sem að baki standa annaðhvort leið að tölvubúnaði þess sem lætur glepjast eða tekur á móti greiðslu grandlauss notanda sem heldur að hann sé að bregðast við skilaboðum frá vefþjónustu.

Meint vefþjónusta var í þessu tilfelli efnisveitan Netflix og bárust Magnussen skilboð, sem líta skyldu út fyrir að eiga uppruna sinn hjá veitunni, þar sem Magnussen var tjáð á lýtalausri norsku að ekki hefði tekist að meðhöndla síðustu áskriftargreiðslu hennar. „Reyndu aftur eða uppfærðu greiðsluupplýsingar þínar svo þú getir haldið áfram að horfa á Netflix.“ Einfalt og kurteislegt, hlekkur til að smella á neðan við textann.

Leist ekki á blikuna

Magnussen leist hins vegar ekkert á hlekkinn og lét ekki blekkjast. Öll fjölskyldan notar sama Netflix-aðganginn og Magnussen býður ekki í hver málalok hefðu orðið hefði móðir hennar fengið skilaboðin.

„Mamma hefði til dæmis örugglega smellt á hlekkinn og gefið upp greiðsluupplýsingar þar, hún er ekki eins tortryggin og ég og treystir bara Netflix. Þess vegna langar mig að deila þessu sem víðast hafi fleiri fengið sams konar skilaboð,“ segir Magnussen sem fékk hlekkinn gegnum SMS-skilaboð.

Nina Magnussen lét ekki ginnast af SMS-skilaboðum sem litu út …
Nina Magnussen lét ekki ginnast af SMS-skilaboðum sem litu út fyrir að koma frá efnisveitunni góðkunnu Netflix og skellti skollaeyrunum við. Flestir stærri fjölmiðlar Noregs greina frá Netflix-svindlurunum í dag. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fjölmiðlafulltrúi Netflix í Noregi, Sondre Ronander, svarar fyrirspurn VG um málið. „Við tökum öryggismálum viðskiptavina okkar af mikilli alvöru og Netflix býr yfir ýmsum úrræðum til að koma upp um svikahrappa. Því miður eru vefveiðar [phising] útbreiddar á lýðnetinu og svikahrappar beita fyrir sig útbreiddum vörumerkjum á borð við Netflix og önnur fyrirtæki með mikinn fjölda viðskiptavina til þess að ginna notendur til að gefa upp persónulegar upplýsingar,“ segir Ronander enn fremur.

Hann hvetur að lokum alla, sem vilja komast hjá því að festast í netum svikahrappa, til að lesa um netsvindl á vefsetri Netflix eða hafa samband við þjónustuver efnisveitunnar. Að lokum fylgir gullna reglan í vörnum gegn óprúttnum aðilum á lýðnetinu: „Skiptu um lykilorð.“

VG

VG II (frétt frá 2016 um falska tölvupósta í nafni Netflix)

Aftenposten

Dagbladet

Tek.no

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka