24 smábörn látin úr mislingum

AFP

Alls eru 25 látnir í mislingafaraldri á Samóaeyjum, allt börn yngri en fjögurra ára fyrir utan einn fullorðinn einstakling.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórn landsins hafa 2.194 einstaklingar greinst með mislinga á Samóaeyjum og er yfir helmingur þeirra börn yngri en fjögurra ára gömul. Alls búa 200 þúsund manns á eyjunum. 

Lýst hefur verið yfir neyðarástandi á eyjunum og unnið að bólusetningu. Yfir 17 þúsund hafa verið bólusettir undanfarna fimm daga. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur sent 110 þúsund skammta af bóluefni við mislingum og hjúkrunarlið frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi er komið á vettvang til að aðstoða. 

AFP

Mislingar hafa einnig komið upp á Tonga og Fiji en ástandið er miklu betra þar. Helsta skýringin á því hvers vegna Samóaeyjar verða jafn illa úti og raun ber vitni er hversu lágt hlutfall, 28-30%, íbúa hafa verið bólusettir. Um tíma var hætt að bólusetja á eyjunum í fyrra eftir að tvö börn létust eftir að hafa verið bólusett. Rannsókn leiddi í ljós að hjúkrunarfræðingar höfðu fyrir mistök gefið börnunum rangt bóluefni en vegna hræðslu og vantrausts foreldra á heilbrigðiskerfinu hætti fólk að þora með börn sín í bólusetningu.

AFP

Mislingaveiran er mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. hósta og hnerra). Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið. Einkenni mislinga byrja að koma fram um 10–12 dögum eftir smit og geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oftast með flensulíkum einkennum, þ.e. hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3–4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.

Mislingaveiran getur stundum valdið alvarlegum sjúkdómi og leitt til eyrna- eða lungnabólgu, kviðverkja, uppkasta, niðurgangs og heilabólgu. Mislingar eru mest smitandi dagana áður en útbrotin koma fram en eftir það dregur úr smitlíkum næstu fjóra dagana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert