Flotamálaráðherra Bandaríkjanna rekinn

Richard Spencer, fyrrverandi flotamálaráðherra Bandsaríkjanna.
Richard Spencer, fyrrverandi flotamálaráðherra Bandsaríkjanna. AFP

Flotamálaráðherra Bandaríkjanna, Richard Spencer, hefur verið látinn taka pokann sinn. Ekki er fyllilega ljóst hvers vegna Spencer var látinn fara samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC, en talið er að ástæðan tengist réttarhöldum yfir liðsmanni í sérsveitum bandaríska sjóhersins sem sakfelldur var fyrir að stilla sér upp til myndatöku með líki vígamanns úr röðum hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

Mál sérsveitarmannsins Edward Gallagher leiddi til spennu í samskiptum Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, og foringja í sjóhernum segir í fréttinni. Til stóð að lækka Gallagher í tign í kjölfar réttarhaldanna en Trump kom hins vegar í veg fyrir það.

Mark Esper varnarmálaráðherra hefur sagt að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli hans og Spencers vegna einkasamtala þess síðarnefnda við forsetaskrifstofuna sem ekki hafi samræmst stöðu hans sem ráðherra. Trump hefur hins vegar sagt að hann hafi verið ósáttur við að framúrkeyrslu í málaflokki Spencers og enn fremur að hann hafi verið ekki verið sáttur við framkvæmd réttarhaldanna yfir sérsveitarmanninum.

Spencer segir sjálfur í harðorðu bréfi sem hann sendi frá sér, eftir að honum hafði verið gert að taka pokann sinn, að hann og Trump deildu ekki sömu sýn á „reglusemi og aga“. Líf bæði hermanna og óbreyttra borgara væru bókstaflega háð því að staðið væri með faglegum hætti að aðgerðum á vegum sjóhersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert