Andrés Bretaprins, hertogi af Jórvík, mun draga sig út úr starfsemi og stjórn 230 góðgerðarfélaga og -samtaka. Áður höfðu nokkur þessara samtaka lýst því yfir að réttast væri að prinsinn viki úr stjórnum og sem verndari þeirra.
Í frétt breska dagblaðsins The Guardian segir að blaðið hafi fengið staðfestingu þess efnis frá Buckingham-höll að prinsinn hefði ákveðið að víkja tímabundið til hliðar. Gefið væri til kynna að hann myndi snúa aftur til þessara verkefna.
Þessi ákvörðun var tekin eftir að tengsl Andrésar prins við barnaníðinginn Jeffrey Epstein komust enn og aftur í hámæli og umdeilt viðtal sem hann veitti á bresku sjónvarpsstöðinni BBC fyrir rúmri viku.
Í síðustu viku tilkynnti Andrés að hann myndi draga sig í hlé frá öllum opinberum skyldustörfum á vegum bresku konungsfjölskyldunnar og flytja skrifstofu sína út úr Buckingham-höll.