Ibrahim Ezz El-Din varð 27 ára fyrir nokkrum dögum. Hann fagnaði ekki deginum með fjölskyldu sinni því hann hvarf að kvöldi til 11. júní 2019. Hundruð einstaklinga eins og Ibrahim hafa horfið á líkan hátt í Egyptalandi, þeim er haldið í fangelsi svo mánuðum skiptir án réttarhalda.
Ibrahim Ezz El-Din rannsakar mannréttindabrot í Kaíró. Starfið skiptir Ibrahim miklu máli en hann rannsakar og upplýsir um aðgengi fólks að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.
„Utan vinnutíma hefur hann unun af að fást við teikningu en áhugi hans beinist einnig að hönnun. Ibrahim er jafnframt mikill knattspyrnuáhugamaður og fylgist vel með gengi heimamanna, Zamalek fótboltaliðsins.
Að kvöldi dags þann 11. júní 2019 var Ibrahim á gangi heimleiðis þegar fjórir óeinkennisklæddir lögreglumenn umkringdu hann og handtóku. Þegar móðir hans uppgötvaði hvernig var í pottinn búið hélt hún samstundis á lögreglustöð í nágrenninu en þegar þangað var komið fullyrti lögregla að Ibrahim væri hvorki á staðnum né í varðhaldi.
Allt frá þessu örlagaríka kvöldi hefur fjölskylda Ibrahims reynt að komast að því hvað varð um hann. Hún hefur engin svör fengið. Ibrahim er fimmti einstaklingurinn sem starfar fyrir egypska nefnd um mannréttindi og frelsi og handtekinn hefur verið á aðeins þremur árum.
Hundruð einstaklinga eins og Ibrahim hafa horfið á líkan hátt í Egyptalandi og síðan komið í ljós að þeim er haldið í fangelsi, svo mánuðum skiptir, án réttarhalda. Margir eru handteknir fyrir það eitt að tjá skoðun sína friðsamlega, gagnrýna stjórnvöld eða verja mannréttindi. Um getur verið að ræða hvern sem er, allt frá stjórnmála- og blaðafólki til knattspyrnuáhugafólks,“ segir á vef Íslandsdeildar Amnesty International en mál hans er eitt þeirra sem er hluti af herferð Amnesty International í ár.
Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International lést faðir Ibrahims þegar hann var í menntaskóla. Hann á þrjú systkini, tvo bræður og systur. Hann starfar sem sérfræðingur hjá réttindasamtökunum ECRF.
Ibrahim er fæddur 15. nóvember 1992 en hann hóf störf hjá ECRF í febrúar 2016. Hann var handtekinn af lögreglu 11. júní í sumar eins og áður sagði. Hann var handtekinn úti á götu í hverfinu sem hann býr í og ekkert hefur spurst til hans síðan þrátt fyrir að fjölskylda hans og lögmenn hafi reynt ítrekað að fá upplýsingar um hvarfið á lögreglustöðinni í hverfinu.
Yfirvöld neita því að hann sé í haldi þeirra. Ekkert er frekar vitað um hvar hann er í haldi en ríkissaksóknari hefur verið upplýstur um málið, segir í gögnum Amnesty International. Ekkert frekar um fleiri hundruð manns sem hafa horfið sporlaust í Egyptalandi líkt og Ibrahim.
Í einhverjum tilvikum hefur fólk verið ákært fyrir hryðjuverkastarfsemi vegna starfa sinna og haldið mánuðum saman áður en réttað er í málum þeirra. Sumir jafnvel árum saman. Ibrahim er fimmti starfsmaður ECRF sem hefur verið handtekinn frá árinu 2016. Þar á meðal er lögfræðingurinn Haytham Mohamdeen sem er sérfræðingur í vinnumarkaðsrétti. Hann hefur setið í varðhaldi frá 13. maí 2019 en hann er ákærður fyrir að hafa veitt hryðjuverkasamtökum aðstoð.
Í maí í fyrra var Amal Fathy, sem er mannréttindafrömuður í Egyptalandi og eiginkona framkvæmdastjóra ECRF, Mohamed Lotfy, handtekin fyrir myndskeið þar sem hún gagnrýnir yfirvöld fyrir að taka ekki á kynferðislegri áreitni. Hún var látin laus í desember. Eiginmaður hennar er fyrrvervandi sérfræðingur hjá AmnestyInternational.
Egypski lögfræðingurinn Amr Iman var handtekinn í október skömmu eftir að hann greindi frá því að hann ætlaði í hungurverkfall til stuðnings aðgerðarsinna sem eru í haldi í Egyptalandi. Hungurverkfallið átti að vera tileinkað tveimur aðgerðarsinnum Israa Abdel Fattah og Alaa Abdel Fattah auk lögmannsins Mohamed Al-Baqer.
Israa Abdelfattah var rænt úti á götu í október í Kaíró. Hún greindi frá því við saksóknara hvernig hún var barin og tekin kyrkingartaki þegar hún neitaði að upplýsa um lykilorðið í síma sínum. Síðan var henni gert að standa í sömu sporum hreyfingarlaus í átta klukkustundir.
Alaa var handtekinn í lok september á lögreglustöð. Þar var hann barinn, hótað og rændur. Ef hann kvartaði versnaði meðferðin. Amr, sem var viðstaddur handtöku Alaa, segir að þetta sé staða lögfræðinga í landinu. Þeir njóti ekki friðhelgi líkt og dómarar og saksóknarar og geti átt yfir höfði sér handtöku hvenær sem er. Amr er nú meðal fjölmargra lögfræðinga sem hafa verið handteknir að undanförnu í Egyptalandi
Á 12 dögum í byrjun október voru 2.300 manns handteknir í aðgerðum lögreglu, þar á meðal yfir 110 börn.
Þetta eru nokkur dæmi um aðgerðir gegn lögfræðingum í Egyptalandi sem talin eru upp á vefnum Memo.
Á hverju ári í kringum alþjóðlega mannréttindadaginn 10. desember safnast milljónir bréfa, korta, SMS-ákalla og undirskrifta í gegnum alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International þar sem skorað er á stjórnvöld að gera umbætur í mannréttindamálum.
„Þessi einstaki samstöðumáttur skilar raunverulegum breytingum í lífi þeirra sem minnst mega sín. Á hverju ári eru samviskufangar leystir úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolendur pyndinga sjá réttlætinu fullnægt, fangar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri löggjöf breytt,“ segir í tilkynningu frá Amnesty á Íslandi.