Samgöngur í Finnlandi lamaðar vegna verkfalls

Flugvél Finnair.
Flugvél Finnair. AFP

250 flugferðum finnska flugfélagsins Finnair til og frá Helsinki í dag hefur verið aflýst vegna samúðarverkfalls starfsmanna flugvallarins sem sýna þannig starfsfólki finnska póstsins stuðning í kjarabaráttu sinni. Meðal þeirra ferða sem falla niður er ferð félagsins frá Keflavík sem fara átti klukkan 18:50 í dag. 

Flug Icelandair til Helsinki var á áætlun um klukkan 7:30 í morgun, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Keflavíkurflugvallar.

Um 9.000 starfsmenn finnska póstsins, Posti, hafa verið í verkfalli undanfarnar tvær vikur vegna óánægju með kjör sín. Aðgerðir flugvallarstarfsfólksins, sem m.a. starfar við hleðslu og afhleðslu flugvéla, veitingaþjónustu og viðhald, munu einungis standa yfir í dag og eru taldar hafa áhrif á ferðir um 20.000 farþega Finnair. 

Jaakko Schildt, framkvæmdastjóri Finnair, segir í yfirlýsingu að Finnair sé ekki á neitt hátt aðili að aðgerðunum. „Engu að síður hafa þær gríðarleg áhrif á ferðaáætlanir meira en 20.000 farþega Finnair,“ segir hann í yfirlýsingunni. 

Auk þessa munu hvorki rútur né strætisvagnar aka um Helsinki í dag og finnska sjómannasambandið hefur gefið út að hvorki farþega- né vöruflutningaskip sem sigla undir finnskum fána muni sigla frá höfnum í Finnlandi, að því er fram kemur í frétt Reuters-fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert