„Þetta er ekki þitt mál“

Pabbi drapst þú mömmu?
Pabbi drapst þú mömmu? AFP

Franska ríkisstjórnin kynnti í dag nýjar aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi. Það sem af er ári hafa 117 konur verið drepnar af eiginmanni eða fyrrverandi maka í Frakklandi.

Tugþúsundir tóku þátt í aðgerðum í París á laugardag þar sem ofbeldi gagnvart konum og mismunun var mótmælt. Litur mótmælanna var fjólublár og má segja að borg ljósanna hafi breyst í borg fjólubláa litarins þennan dag.

AFP

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Árið 2017 voru 87 þúsund konur og stúlkur myrtar í heiminum. Helmingur þeirra var drepinn af maka, fyrrverandi maka eða öðrum úr fjölskyldunni. 

Eitt af kosningaloforðum Emmanuel Macron í kosningabaráttunni var að herða refsingar í slíkum málum og nú, tveimur og hálfu ári eftir að hann var kjörinn forseti, virðist eitthvað þokast í rétta átt í þessum málum þar sem kynntar voru aðgerðir í 40 liðum í að herða refsingar fyrir kynbundið ofbeldi og útvíkka skilgreininguna á ofbeldi. 

Hlustaði á neitun lögreglu

Frá fjólublárri París á laugardag.
Frá fjólublárri París á laugardag. AFP

Fyrir nokkrum mánuðum heimsótti Macron símaver sem tekur á móti símtölum frá þolendum heimilisofbeldis. Tilgangurinn með heimsókninni var að sýna fram á að aðgerðir stjórnvalda í þessum málaflokki hefðu skilað góðum árangri. Um miðjan september heimsótti Macron símaverið í miðborg Parísar og var boðið að hlýða á samskiptin sem þar færu í gegn. Sat forsetinn hljóður með heyrnartólin á höfðinu og hlustaði á sérfræðing svara símtölum sem bárust þennan morgun. 

Franska leikkonan Eva Darlan var ein fjölmargra sem tóku þátt …
Franska leikkonan Eva Darlan var ein fjölmargra sem tóku þátt í mótmælunum. Eins leikkonan Nadege Beausson Diagne og bróðir Marie Trintignant, Vincent. AFP

Þar á meðal var símtal frá 57 ára gamalli konu sem hringdi og sagði að ofbeldisfullur eiginmaður hennar hefði hótað að drepa hana. Hún hafi búið við heimilisofbeldi árum saman og nú óttaðist hún um líf sitt og hefði flúið á lögreglustöð í hverfinu. Þar lagði hún fram kæru en af ótta við að eiginmaðurinn myndi drepa hana bað hún lögregluna um að fylgja sér heim og bíða á meðan hún tæki saman dótið sitt. En lögreglan neitaði. „Þú ert á lögreglustöð og ert í hættu. Eiginmaður þinn er heima og lögreglan getur fylgt þér,“ sagði sérfræðingurinn við konuna. En hún sagðist hafa óskað eftir aðstoð lögreglu en fengið synjun.

„Þeir verða að hjálpa manneskju í neyð“

Leikkonur voru áberandi á mótmælunum: Alexandra Lamy, Julie Gayet, Nadege …
Leikkonur voru áberandi á mótmælunum: Alexandra Lamy, Julie Gayet, Nadege Beausson Diagne, Eva Darlan auk franska þingmannsins Laurence Rossignol. AFP

Macron gat ekki leynt reiði sinni þegar hann sat og hlýddi á en fór að fyrirmælum og sat hljóður. „Þeir verða að hjálpa manneskju í neyð,“ sagði sérfræðingurinn við konuna og bað um að fá að ræða við lögregluþjón.

Símtalið tók 15 mínútur og var sama hvað sérfræðingurinn bað lögregluna um að grípa inn. Viðbrögðin voru: Þetta er ekki þitt mál. Lögreglan vissi ekki að forseti landsins væri að hlýða á samtalið. Lögregluþjónninn bætti gráu ofan á svart með því að segja við sérfræðinginn, ranglega, að til þess að fylgja konunni heim þyrfti lögreglan úrskurð dómara. 

AFP

Macron sat hljóður, hristi hausinn og skrifaði á miða og rétti sérfræðingnum: „Það er hlutverk lögreglu að vernda hana þegar augljóst er að um hættu er að ræða, með eða án sérstaks dómsúrskurðar,“ stóð á miðanum. 

Sérfræðingurinn hélt áfram að þrýsta á lögreglumanninn: „Þessi kona er í lífshættu, ætlar þú að bíða eftir því að hún verði raunverulega drepin?“

En þrátt fyrir það neitaði lögreglan að grípa til aðgerða. Eftir símtalið spurði Macron sérfræðinginn hvort þetta gerðist oft. Sérfræðingurinn, sem hefur starfað sem slíkur í meira en 20 ár, svaraði játandi og að það gerðist oftar og oftar.

Fáránleg og skaðleg ákvæði

Frá París.
Frá París. AFP

Forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe, greindi frá aðgerðunum á fundi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi í París í morgun. Hann segir að meðal annars verði skilgreining á ofbeldi víkkuð út þar á meðal hvernig áreitni getur leitt til sjálfsvígs. 

Eins og áður sagði hafa 117 konur verið myrtar af mönnum sínum, núverandi og fyrrverandi, það sem af er ári. Í fyrra var 121 kona myrt af maka. Á sama tíma verða 213 þúsund konur í Frakklandi fyrir andlegu og eða líkamlegu ofbeldi þar sem gerandinn er annaðhvort núverandi eða fyrrverandi maki. 

AFP

Philippe segir að sérstaklega verði horft til þess að breyta og laga fáránlega og um leið skaðlega skilgreiningu í franskri löggjöf þegar kemur að vernd kvenna. Að sögn Philippe verður læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki gert auðveldara fyrir að tilkynna til opinberra aðila ef grunur leikur á að manneskja eigi á hættu að verða fyrir ofbeldi. 

Frumvarpið verður lagt fram á þingi í janúar og stendur til að setja 360 milljónir evra, sem svarar til tæplega 50 milljarða króna, inn í verkefnið árlega.

Heimilisofbeldi er ekki spurning um peninga

Forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe, ásamt Marlene Schiappa, barnamála- og jafnréttisráðherra, …
Forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe, ásamt Marlene Schiappa, barnamála- og jafnréttisráðherra, á kynningarfundinum í dag. AFP

Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælum víða í Frakklandi á laugardag en mótmælin voru skipulögð af hreyfingu feminista, #NousToutes (við öll). „Við gengum til þess að sýna svart á hvítu reiði okkar. Til að krefjast aðgerða og það sé í höndum ríkisstjórnarinnar að grípa til aðgerða,“ segir í tilkynningu frá #NousToutes eftir mótmælin. 

Marlene Schiappa jafnréttisráðherra ýjaði að því í viðtali við Figaro um helgina að fjármagnið væri ekki vandamál enda væri baráttan gegn heimilisofbeldi ekki bara spurning um peninga. 

Frá mótmælum Non Una di Meno í Róm.
Frá mótmælum Non Una di Meno í Róm. AFP

Miðborg Parísar var fjólublá á laugardaginn en fjólublár er litur baráttunnar. Margir þeirra sem tóku þátt báru skilti með myndum af ættingjum eða vinum sem höfðu verið drepnir af maka.

„Rjúfið þögnina, ekki konur“ og „Ofbeldismaður og hrellir, þú ert búinn að vera. Konur eiga göturnar núna.“  

49 þúsund tóku þátt í París

Frá Róm.
Frá Róm. AFP

Alls voru göngurnar 30 talsins í Frakklandi á laugardag en þær voru skipulagðar af fjölmörgum samtökum, stjórnmálaflokkum, stéttarfélögum o.fl. Talið er að 49 þúsund hafi tekið þátt í París en #NousToutes telja að þátttakendurnir hafi verið mun fleiri. 

AFP

Á Ítalíu var staðan svipuð en tugþúsundir tóku þátt í slíkri göngu í Róm. Þar voru mótmælin skipulögð af hreyfingunni Non Una de Meno! en samkvæmt upplýsingum frá henni hafa 94 konur verið drepnar af maka eða fyrrverandi maka þar í landi í ár. 

Ráðherra efnahagsmála á Ítalíu, Roberto Gualtieri, tilkynnti á laugardag að 12 milljónum evra yrði varið í aðstoða börn kvenna sem myrtar eru af mökum. Má þar nefna skólastyrki, lækniskostnað og fleira. 

AFP

Þriðja hvern dag er kona drepin af maka eða fyrrverandi maka í Frakklandi. Dómsmálaráðherra Frakklands, Nicole Belloubet, segir að þetta sé ekki boðlegt og að kerfið verði að vernda þessar konur. Meðan á mótmælunum stóð á laugardag var tæplega sextugur karlmaður ákærður fyrir að hafa myrt eiginkonu sína en lík hennar fannst viku fyrr í skóglendi í Loire-héraði. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert