Trump skipaði ráðuneytinu að lækka sérsveitarmanninn ekki í tign

Sérsveitarmaðurinn Edward Gallagher. Ekkert verður af fyrirhugaðri yfirheyrslu yfir honum …
Sérsveitarmaðurinn Edward Gallagher. Ekkert verður af fyrirhugaðri yfirheyrslu yfir honum vegna agabrota. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti skipaði bandaríska varnarmálaráðuneytinu að lækka ekki í tign liðsmann í sér­sveit­um banda­ríska sjó­hers­ins, sem sak­felld­ur var fyr­ir að stilla sér upp til mynda­töku með líki víga­manns úr röðum hryðju­verka­sam­tök­un­um Ríki íslams.

Varnarmálaráðherrann Mark T. Esper greindi frá þessu í dag og segir New York Times staðfestingu ráðherrans á skipun forsetans vera nýjasta snúninginn á deilum forsetans við yfirmenn sjóhersins um örlög sér­sveit­ar­manns­ins Edw­ard Gallag­her.

Til stóð að lækka Gallag­her í tign í kjöl­far rétt­ar­hald­anna yfir honum, en Trump kom hins veg­ar í veg fyr­ir það.

Greint var svo frá því fyrr í dag að Richard Spencer, flota­málaráðherra Banda­ríkj­anna, hefði í gær verið lát­inn taka pok­ann sinn.

Sakaði varnarmálaráðherrann flotamálaráðherrann raunar um að hafa ekki greint sér frá því að hann stæði í samningaviðræðum við Hvíta húsið um samkomulag sem væri ólíkt því sem Spencer hefði greint varnarmálaráðuneytinu frá.

Esper tilkynnti svo í dag að herinn myndi virða ósk forsetans. „Ég ræddi við forsetann á sunnudag,“ sagði hann á fundi með fréttamönnum. „Hann skipaði mér að láta Eddie Gallagher“ halda sérsveitarstöðu sinni, sagði Esper.

Er þetta í annað skipti sem Trump hefur gert það lýðum ljóst að hann vilji að Gallagher haldi stöðu sinni í sérsveit sjóhersins, en forsetinn vakti fyrst máls á því í færslu á Twitter á fimmtudag.

Yfirmenn í sjóhernum sögðu hins vegar um helgina að þeir litu ekki svo á Twitter skilaboð jafngiltu forsetaskipun og því væri haldið áfram að undirbúa yfirheyrslur vegna agabrota sem gætu leitt til þess að Gallagher yrði lækkaður í tign.

Ekkert verður hins vegar af yfirheyrslunum nú að því er embættismenn í varnarmálaráðuneytinu hafa gefið í skyn.

Spencer sagði sjálf­ur í harðorðu bréfi sem hann sendi frá sér, eft­ir að hon­um hafði verið gert að taka pok­ann sinn, að hann og Trump deildu ekki sömu sýn á „reglu­semi og aga“. Líf bæði her­manna og óbreyttra borg­ara væru bók­staf­lega háð því að staðið væri með fag­leg­um hætti að aðgerðum á veg­um sjó­hers­ins.

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir Trump hafa skipað sér að …
Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir Trump hafa skipað sér að lækka sérsveitarmanninn ekki í tign. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert