Dregur til tíðinda í morðrannsókn á Möltu

Mótmælt við þinghúsið á Möltu.
Mótmælt við þinghúsið á Möltu. AFP

Forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat, segir að ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, Keith Schembri, hafi stigið til hliðar á sama tíma og lögreglan hefur víkkað út rannsókn sína á morðinu á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia.

Samkvæmt frétt BBC var ekki hægt að fá Schembri í viðtal en fréttir hermi að hann sé að aðstoða lögregluna við rannsóknina. Í síðustu viku var maltneskur kaupsýslumaður, Yorgen Fenech, handtekinn í tengslum við rannsóknina og hefur maður sem er grunaður um milligöngu um morðið fengið sakaruppgjöf úr hendi forsetans. 

Snekkjan hans Yorgen Fenech.
Snekkjan hans Yorgen Fenech. AFP

Muscat tjáði þingheimi að sá grunaði, Melvin Theuma, hefði fengið friðhelgi gegn því að veita upplýsingar um morðið. Samkvæmt fréttum maltneskra miðla var hann með hljóðupptökur tengdar málinu.

Daphne Caruana Galizia var drepin með bílsprengju í október 2017 eftir að hafa skrifað nokkrar færslur á bloggsíðu sína um spillingu í heimalandinu. Hún sakaði meðal annars fyrirtæki í eigu Fenech, 17 Black, um óeðlileg tengsl við stjórnmálamenn á Möltu.

Talið er að Fenech hafi óskað eftir sakaruppgjöf gegn upplýsingum. Hann er á sjúkrahúsi eftir dramatíska handtöku á snekkju hans í síðustu viku. Þrír eru þegar ákærðir fyrir að hafa framið morðið.

Keith Schembri, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu á Möltu.
Keith Schembri, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu á Möltu. AFP

Eftir að Fenech var handtekinn í síðustu viku kom hópur fólks saman fyrir utan þinghúsið í Valletta og krafðist afsagnar Muscats. 

Schembri er meðal þeirra sem nefndir eru í Panama-skjölunum og Caruana Galizia sakaði hann og ráðherra um að hafa hagnast á skúffufyrirtækjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert