Eiga að fylgjast með vistmönnum öllum stundum

Sannanirnar fyrir því að kínversk stjórnvöld haldi úti kyrrsetningabúðum, þar sem meira en milljón manna sem tilheyra minnihluta-, þjóðernis- og trúarhópum eru fangelsaðir, pyntaðir og heilaþvegnir, eru nú svo skýrar að ríki heims verða að bregðast við. Þetta er mat Amnesty International  eftir að skjölum úr kínverska stjórnkerfinu um aðgerðir til að hindra flótta úr búðum var lekið til ICIJ, samtaka rannsóknarblaðamanna.

Fjölmiðlar í 17 löndum hafa birt fréttir af því sem fram kemur í skjölunum. Þar kemur m.a. fram hvernig lífinu í kyrrsetningabúðunum í Xinjiang er stýrt, en talið er að ein milljón manna sem tilheyrir úígúrum og öðrum minnihlutahópum múslima sé þar í haldi.

Kínversk stjórnvöld hafa lengi vel fullyrt að um sé að ræða endurmenntunarbúðir sem fólk sæki sjálfviljugt. Skjölin eru hins vegar sögð sanna að milljón úígúr-múslimar, fólk sem ættað er frá Kasakstan og aðrir þjóðernisminnihlutahópar, séu vistaðir í búðum í vesturhluta Kína.

Gert að fylgjast með fólki á klósettinu

„Við höfum miklar áhyggjur af þeim upplýsingum sem þarna koma fram um ástandið í Xinjiang-héraði hefur danska ríkisútvarpið DR eftir Trine Christiensen, formanni Amnesty. Segir hún ástandið með því öfgakenndasta sem þekkist í samtímanum.

Í einu skjalinu er starfsfólki sagt að fylgjast með vistmönnum búðanna öllum stundum, líka þegar þeir bregði sér á klósettið, til þess að koma í veg fyrir flótta. Þá er starfsfólki bannað að vingast við vistmenn, eða að eiga í „persónulegum samskiptum“ við þá til að koma í veg fyrir samráð þeirra á milli.

„Þetta rústar þeirri mynd kínverska kommúnistaflokksins að þetta séu endurmenntunarbúðir þar sem úígúr-múslimar og aðrir kínverskir múslimar séu sjálfviljugir í námi,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir James Leibold, prófessor við La Trobe-háskólann í Ástralíu sem er sérfræðingur í málefnum Kína. Þess í stað segir hann skjölin draga upp mynd af „útreiknaðri valdbeitingu“.

Sagt að sýna enga miskunn

Lekinn kemur viku eftir að New York Times greindi frá því að Xi Jinping Kínaforseti hefði skipað embættismönnum að „sýna enga miskunn“ gegn aðskilnaðar- og öfgasinnum í ræðu sem hann hélt árið 2014 eftir að uppreisnarmenn úígúr-múslima gerðu árás á lestarstöð í Kína. Frétt New York Times byggði skjölum frá kínversku stjórnsýslunni sem lekið var í blaðið.

Geng Shuang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, hafnaði í dag fréttum fjölmiðla af búðunum og sagði um óhróðursherferð að ræða gegn aðferðum kínverkskra yfirvalda til að taka á hryðjuverkum og öfgatrú í Xinjiang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert