Þremenningarnir sem jafnan hafa verið kallaðir hákarlarnir í tengslum við mál Samherja í Namibíu eru tilbúnir að gefa sig fram við lögreglu. Munu tveir þeirra koma frá Suður-Afríku í dag. Samkvæmt bréfi lögmanns þeirra til ACC, spillingarlögreglunnar í Namibíu, eru mennirnir ekki í felum og segjast tilbúnir til samstarfs. Þetta kemur fram í frétt namibíska miðilsins New era live.
Hákarlarnir þrír eru þeir James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarfélagsins Fishcor, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og náfrændi James.
Fram kemur í fréttinni að í Shanghala og James Hatuikulipi hafi verið í Suður-Afríku þegar málið fór á flug, en þeir ætli að koma til baka til Namibíu í dag. Þá kemur fram að lögreglan hafi ekki gert neinar tilraunir til að nálgast eða setja sig í samband við Tamson Hatuikulipi.