Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, neitaði ítrekað að biðja gyðinga í Bretlandi afsökunar á því að hafa leyft gyðingahatri að grassera innan flokksins, í viðtali við BBC í gær. Gyðingahatur eða and-semítismi innan flokksins hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri og gagnrýnin stigmagnaðist fyrr í vikunni þegar Ephraim Mirvis, æðsti rabbíni Bretlands, sagði að gyðingaandúð væri „nýtt eitur“ innan flokksins, sem hefði verið „samþykkt allt frá æðstu stöðum“.
Mirvis ritaði í grein í dagblaðið Times á mánudag að Corbyn væri af þessum sökum óhæfur til að gegna embætti forsætisráðherra. Fyrirsögnin er: „Hvað verður um gyðingana í Bretlandi ef Verkamannaflokkurinn myndar næstu ríkisstjórn?“
Í sumar birti Panorama, fréttaskýringarþáttur BBC, heimildarmynd um vandamálið innan Verkamannaflokksins. Þar var því lýst, af fyrrverandi og núverandi flokksmönnum auk fyrrverandi starfsmanna flokksins, hvernig kvartanir vegna gyðingahaturs innan flokksstarfsins hefðu stóraukist eftir að Corbyn varð formaður árið 2015 og hvernig flokkurinn hefði klúðrað því að takast á við vandann.
Í viðtalinu við BBC í gær voru Corbyn gefin ítrekuð tækifæri til þess að biðjast afsökunar á því hvernig flokkurinn hefði tekið á gyðingaandúðinni þar innanhúss, sem margir hafa vitnað um. Corbyn vék sér undan því að svara beint er hann var spurður hvort hann vildi biðjast afsökunar.
„Það sem ég mun segja er þetta: Ég er staðráðinn í að gera samfélag okkar öruggt fyrir fólk af öllum trúarbrögðum,“ sagði Corbyn í viðtalinu. „Ég vil ekki að neinn upplifi óöryggi í okkar samfélagi og ríkisstjórn [Verkamannaflokksins] mun vernda öll samfélög gegn því níði sem þau verða fyrir,“ sagði hann einnig.
Á blaðamannafundi Verkamannaflokksins í dag, þar sem rætt var um heilbrigðiskerfi Bretlands, var spurningum um þetta efni hreinlega vísað frá, eins og sjá má hér að neðan í myndskeiði frá Sky News. Barry Gardiner, þingmaður flokksins, sat fyrir svörum á fundinum ásamt Corbyn og bað blaðamenn um að spyrja fremur um málin sem væri verið að kynna.
Corbyn svaraði þó spurningum blaðamanna vegna málsins og sagði að Verkamannaflokkurinn hefði þegar beðið þá sem hefðu orðið fyrir særindum vegna and-semítisma inna flokksins afsökunar. Þá sagði hann að fjöldi gyðinga innan Verkamannaflokksins væri á þeirri skoðun að hægt væri að treysta honum til að vernda þá og aðra minnihlutahópa fyrir hatri og níði.
Í heimildarmynd Panorama frá því í sumar var farið yfir það hvernig fjöldi fólks kom inn í flokksstarf Verkamannaflokksins eftir að Corbyn var kjörinn formaður og að stuðningsmenn hans hefðu margir hverjir aðra heimssýn en þeir sem fyrir voru í starfi flokksins.
Corbyn hefur alla tíð verið ötull talsmaður fyrir málstað Palestínumanna í deilu þeirra við Ísraelsmenn og margir sem flykktust að flokknum eftir að Corbyn varð formaður höfðu sterkar skoðanir á þeim efnum og í garð Ísraelsríkis og gyðinga. Öfgafullar og hatursfullar skoðanir jafnvel.
Corbyn viðurkenndi eftir að heimildarmyndin fór í loftið í sumar að flokkurinn hefði getað staðið sig betur í að vinna gegn gyðingahatri í flokksstarfinu.
Í ræðu sem leiðtoginn flutti í gær, þar sem hann var að kynna stefnuskrá flokksins í kynþátta- og trúarmálum, sagði hann að and-semítismi ætti hvergi að eiga sér stað og Verkamannaflokkurinn hefði skilvirkt kerfi til þess að takast á við kvartanir frá flokksmönnum vegna gyðingahaturs. Það kerfi væri sífellt í endurskoðun. Það er þvert á mat æðsta rabbínans Mirvis og margra annarra.
Níu þingmenn Verkamannaflokksins sögðu sig úr flokknum vegna málsins í febrúar síðastliðnum. Einn þeirra, Ian Austin, sagði á Twitter-síðu sinni í gær að það væri sér sárt að sjá flokk sem margir hefðu gengið til liðs við til að berjast gegn rasisma og fyrir jafnrétti, smættaðan í þetta. „Corbyn & co ættu að skammast sín,“ sagði Austin.
Fleiri trúarhópar hafa stigið inn í pólitíska umræðu í Bretlandi undanfarinn rúman sólarhring, sem þykir heyra til nokkurra tíðinda. Þannig sendi stjórn Múslimaráðs Bretlands frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsti yfir stuðningi við að Mirvis léti í sér heyra, en sagði þó einnig að Íhaldsflokkurinn hefði, á svipaðan hátt og Verkamannaflokkurinn hvað gyðinga varðar, brugðist í að taka á múslimahatri eða íslamófóbíu innan sinna raða. Múslimaráðið segir Íhaldsflokkinn hafa nálgast það vandamál með afneitun og fláræði.
Kristnir hafa líka látið í sér heyra. Justin Welby, erkibiskupinn af Kantaraborg, sagði á Twitter-síðu sinni að það að skrif Mirvis „ættu að vekja okkur til vitundar um hið djúpa óöryggi sem og ótta sem margir breskir gyðingar upplifa“.
Anil Bhanot, einn stofnenda Hindúaráðsins í Bretlandi, ritaði Mirvis bréf þar sem hann lýsti yfir stuðningi við inngrip rabbínans í umræðuna nú skömmu fyrir kosningar. Í bréfinu sagði hann að Verkamannaflokkurinn hefði smám saman færst til þess að vera gegn gyðingum og hindúum líka.