Skilgreind sem hryðjuverkasamtök

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á kosningafundi í Flórída í gær.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á kosningafundi í Flórída í gær. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að mexíkósk fíkniefnasamtök verði skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Þetta kemur fram í viðtali við forsetann sem birt var á netinu í gær.

Fyrr í mánuðinum hvatti Trump til stríðs gegn fíkniefnasamtökunum þegar níu konur og börn voru drepin í skotárás í norðurhluta Mexíkó. Þau voru með bandarískt ríkisfang sem og mexíkóskt.

„Ætlar þú að lýsa þessum samtökum í Mexíkó sem hryðjuverkahópum og ráðast á þau með drónum?“ spyr Bill O'Reilly forsetann í viðtali á eigin vef. „Ég vil ekki upplýsa um hvað ég hyggst gera en þeir verða skilgreindir,“ svarar Trump.

Hann bætti við að von sé á formlegri skilgreiningu á þessum glæpasamtökum og hann hafi unnið að því í 90 daga. Slík vinna  sé ekki auðveld enda þurfi slík skilgreining að fara í gegnum ákveðið ferli. Sú vinna sé hafin.

AFP

Ummæli Trumps eru hluti af lengra viðtali en til þess að geta hlýtt á það þarf áskrift að vef O'Reilly.

Mexíkósk yfirvöld brugðust strax við ummælum Trumps og segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að haft hafi verið samband við bandarísk yfirvöld til þess að fá úr því skorið hvað forsetinn á við. 

Jafnframt verði óskað eftir fundi eins fljótt og auðið er til þess að koma stöðu Mexíkó á framfæri og hlýða á hugmyndir bandarískra stjórnvalda. 

Mexíkó mun óska eftir því að gripið verði til aðgerða til þess að stöðva flóð vopna og peninga frá Bandaríkjunum til skipulagðra glæpasamtaka í Mexíkó sem er undanfari þess að efni og eiturlyf eru flutt frá Mexíkó til Bandaríkjanna. 

Mexíkósk yfirvöld hafa lengi kvartað undan straumi vopna frá Bandaríkjunum sem er smyglað yfir landamærin til Mexíkó. 

Utanríkisráðherra Mexíkó, Marcelo Ebrard, er harðorður á Twitter í garð Trump en hann segir að Mexíkó muni aldrei heimila brot á fullveldi landsins. Hann segir að yfirvöld í Mexíkó hafi þegar greint bandarískum yfirvöldum frá skoðunum sínum og lausnum í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi sem nær yfir landamæri. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert