Forsætisráðherra Íraks segir af sér

Adel Abdel Mahdi, forsætisráðherra Íraks.
Adel Abdel Mahdi, forsætisráðherra Íraks. AFP

Forsætisráðherra Íraks tilkynnti í dag að hann myndi verða við óskum æðsta klerks landsins og segja af sér embætti. Þetta gerir Adel Abdel Mahdi í ljósi ofbeldisfullra mótmæla gegn stjórnvöldum í landinu.

Hundruð hafa látist og tugþúsundir slasast í aðgerðum hers og lögreglu gegn mótmælendum, og þegar Abdel Mahdi opinberaði yfirlýsingu um afsögn sína brutust út mikil fagnaðarlæti á Tahrir-torginu í Baghdad, höfuðborgar Írak, þar sem mótmælendur hafa helst haldið til.

„Þetta er okkar fyrsti sigur og við vonumst eftir mörgum fleiri,“ öskraði einn mótmælenda á toginu. „Við yfirgefum ekki torgið fyrr en hvert eitt og einasta af þessu spillta fólki segir af sér,“ öskraði annar.

Mótmæli gegn ríkisstjórn Íraks hafa staðið yfir í tvo mánuði.
Mótmæli gegn ríkisstjórn Íraks hafa staðið yfir í tvo mánuði. AFP

Þrátt fyrir gleðina héldu öryggissveitir þó áfram að storma að mótmælendum og hermir fréttastofa AFP að 15 mótmælendur hafi látist í átökum í dag, flestir í borgunum Nasiriyah og Najaf.

Yfirlýsing Abdel Mahdi var, eins og áður segir, birt eftir að æðsti klerkur Íraks, Grand Ayatollah Ali Sistani, biðlaði til íraska þingsins að hætta stuðningi við núverandi ríkisstjórn landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert