Árásarmaðurinn var á reynslulausn

Tveir létust í árásinni.
Tveir létust í árásinni. AFP

Árásármaðurinn sem stakk tvo til bana með hnífi á London Bridge í gær hefur verið nafngreindur. Hann hét Usman Khan, var 28 ára gamall, dæmdur hryðjuverkamaður á reynslulausn. Khan var undir rafrænu eftirliti og hafði um sig ökklaband þegar hann framdi ódæðið. Breska ríkisútvarpið, BBC greinir frá. 

Lögreglan skaut manninn til bana þegar hann gerði tilraun til að rísa á lappir eftir að borgara höfðu náð að yfirbuga hann. Kona og karl létust í árásinni og þrír til viðbótar særðust, þar af eitt alvarlega. Lögreglan taldi hann íklæddan sprengjuvesti en það reyndist eftirlíking. 

Árásin átti sér stað rétt fyrir klukkan 14 á föstudaginn á Fishmongers' Hall stendur norður af London brúnni. Hann hafði áður hlýtt á fyrirlestur í háskólanum í Cambridge um endurhæfingu fanga sem nefndist Lærum saman. Fjölmennt var á erindinu og þar voru saman komnir nemendur og fyrrum fangar. Hann byrjaði að leggja til atlögu á þeim slóðum og hélt áfram þegar fram kom á London-brúnna.  

Khan hlaut dóm árið 2012 ásamt átta öðrum hryðjuverkamönnum, öfga-íslamistum með tengsl við al-Kaída. Þeir ráðgerðu meðal annars að sprengja kauphöllina í Lundúnum í loft upp auk fleiri staða í London.   

„Hann var látinn laus úr fangelsi í desember 2018 á reynslulausn. Lykilatriði í þessari rannsókn beinist að því að komast að því hvernig hann undirbjó árás sína,“ segir Neil Basu aðstoðarlögreglustjóri Lundúnalögreglunnar í tilkynningu. Rannsókn lögreglunnar beinist nú meðal annars að heimili hans í Stafford-skíri. 

Lögreglan leitar ekki annarra vitorðsmanna í tengslum við árásina, þrátt fyrir að rannsóknin sé á byrjunarstigi. Hins vegar vinnur lögreglan af kappi við að útloka aðra frá tengslum við árásina. Lögreglan biðlar til almennings um að veita upplýsingar um málið ef það býr yfir slíkri vitneskju. 

Þegar Kahn hlaut reynslulausn fengu það einnig tveir aðrir einstaklingar sem voru einnig sakfelldir á sínum tíma. 

 

Árásarmaðurinn Usman Kha.
Árásarmaðurinn Usman Kha. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka