Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, hefur sakað Hollywood-leikarann og umhverfissinnann Leonardo DiCaprio um að hafa borgað fyrir að láta kveikja í Amazon-regnskóginum.
Bolsonaro lagði ekki fram nein gögn til stuðnings fullyrðingar sinnar, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann hefur sakað frjáls félagasamtök, sem hafa gagnrýn stefnu forsetans í umhverfismálum, um að kveikja í regnskóginum.
Samkvæmt frétt BBC hefur nokkur fjöldi fólks þegar verið handtekinn í tengslum við ásakanir um íkveikjur í skóginum.
DiCaprio, sem hefur heitið 5 milljónum banaríkjadala til stuðnings Amazon-regnskóginum, neitar ásökunum forsetans brasilíska.
Fjórir slökkviliðsmenn í sjálfboðastarfi voru handteknir á dögunum vegna gruns um að þeir hefðu sjálfir kveikt eldana til þess að reyna að tryggja félagasamtökum sínum styrki. Mannréttindahópar hafa hins vegar sagt aðgerðir lögreglu af pólitískum toga og til þess gerðar að vekja grunsemdir almennings gagnvart umhverfisverndarsamtökum.