Boða aðgerðir í kjölfar hryðjuverkaárásar

Johnson á vettvangi árásarinnar.
Johnson á vettvangi árásarinnar. AFP

Hryðjuverkaárásin á London Bridge hefur orðið til þess að bresk stjónvöld íhuga nú að gera breytingar á öryggis- og fangelsislögum, en maðurinn sem stakk tvo til bana var á reynslulausn eftir að hafa afplánað dóm fyrir skipulagningu hryðjuverks.

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, hefur heitið því að tekið verði á málinu og löggjöf vegna hryðjuverka hert. „Ef þú ert dæmdur fyrir alvarlegt hryðjuverkabrot, þá ætti að vera við því lágmarksrefsing upp á 14 ára fangelsi og suma ætti aldrei að láta lausa,“ sagði Johnson, auk þess sem hann sagði hryðjuverka- og öfgamenn ættu að afplána hvern einasta dag fangelsisdóma sinna.

Hann segir 74 einstaklinga vera í sömu stöðu og árásarmaðurinn, dæmdir hryðjuverkamenn sem látnir hafa verið lausir áður en afplánun þeirra lauk.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, kennir hins vegar niðurskurði ríkisstjórna Íhaldsflokksins á sviði löggæslu, fangelsismála og félags- og geðheilbrigðismála um árásina.

Þingkosningar fara fram í Bretlandi 12. desember næstkomandi og er ljóst að báðir leiðtogar reyna nú að snúa árásinni sér í hag í leit að atkvæðum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka