Gafst ekki upp þrátt fyrir fimm stungur

AFP

Þrátt fyrir að hafa verið stunginn fimm sinnum af árásarmanninum á London-brúnni á föstudag barðist Lukasz hetjulega áfram og með hugrekki hans tókst öðrum að flýja af vettvangi. 

Sky-fréttastofan greinir frá þessu en pólsk yfirvöld ætla að veita Lukasz, sem er pólskur, heiðursorðu fyrir fórnfýsi og hugrekki á meðan árásin stóð yfir. Lukasz starfaði við uppvask í kjallaranum á Fishmongers' Hall og var við vinnu þegar Ushman Khan réðst til atlögu á ráðstefnu í byggingunni.

Jack Merritt og Saskia Jones voru bæði stungin til bana …
Jack Merritt og Saskia Jones voru bæði stungin til bana í hryðjuverkaárásinni. AFP

Saskia Jones, 23 ára og Jack Merritt, 25 ára, létust í árásinni en þau voru starfsmenn á ráðstefnu um endurhæfingu fanga, í Fishmongers. Talið er að mun fleiri hefðu látist ef hetjur eins og Lukasz hefðu ekki gripið til varna. 

Yfirmaður hans segir að þegar Lukasz hafi komið upp til að kanna hvað væri í gangi hafi hann mætt hryðjuverkamanninum vopnuðum tveimur hnífum. Hann hafi rifið tönn af náhval af veggnum og notað hana sem vopn. Með þessu hafi hann unnið tíma fyrir aðra þannig að þeir gátu flúið út. 

Þrátt fyrir að árásarmaðurinn, sem var klæddur í vesti sem fyrst var talið sprengjuvesti, hafi stungið hann fimm sinnum lét Lukasz það ekki stöðva sig. Tveir eða þrír einstaklingar komu honum til aðstoðar og að lokum flúði Khan af vettvangi. Hann var síðan skotinn til bana á brúnni af lögreglu. 

Í dag verður haldin minningarathöfn til heiðurs fórnarlamba árásarinnar og til að heiðra þá sem komu til aðstoðar. Meðal gesta er borgarstjórinn í London, Sadiq Khan.

Telegraph greinir frá því í dag að náinn félagi árásarmannsins var handtekinn í gærkvöldi í aðgerðum lögreglu sem miðar að því að fangelsa að nýju fólk sem hefur verið látið laust til reynslu. Um er að ræða fólk sem hefur verið dæmt á grundvelli hryðjuverkalaga líkt og árásarmaðurinn á föstudag. 

Nazam Hussain, 34 ára, var handtekinn í gærkvöldi grunaður um að vera að undirbúa hryðjuverkaárás. Hann ásamt öðrum dæmdur hryðjuverkamönnum, alls 74, eru til rannsóknar í kjölfar árásarinnar og heimildir Telegraph herma að nokkrir þeirra verði sendir aftur í afplánun næstu daga. Að sögn lögreglu er Hussain ekki talinn tengjast árásinni á London-brúnni. 

Hussain og Usman Khan voru fangelsaðir fyrir hryðjuverkaaðild árið 2012. Þeir voru báðir látnir lausir sama dag í desember í fyrra eftir að dómar þeirra voru styttir fyrir áfrýjunardómstól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka