„Ég sá fólk deyja,“ sagði Bandaríkjamaðurinn Bryonn Bain í samtali við BBC en hann varð vitni að því þegar tvennt var stungið til bana í hryðjuverkaárás á London-brúnni á föstudag.
Saskia Jones og Jack Merritt létust í árásinni en árásarmaðurinn, Usman Khan, var á endanum skotinn til bana. Jones og Merrit voru starfsfólk á ráðstefnu um endurhæfingu fanga en Khan hafði hlotið dóm fyrir hryðjuverk en var sleppt úr haldi í desember í fyrra.
Bain segir að Merritt hafi verið sá fyrsti sem bauð Khan birginn þegar hann réðst á fólk vopnaður hnífi á brúnni síðdegis á föstudag.
„Þetta var eins og stríðssvæði,“ sagði Bain og bætti við að mikil örvænting hefði gripið um sig á brúnni þegar Khan réðst á fólk.
Bresk stjórnvöld íhuga nú að gera breytingar á öryggis- og fangelsislögum í kjölfar hryðjuverksins.
„Ef þú ert dæmdur fyrir alvarlegt hryðjuverkabrot, þá ætti að vera við því lágmarksrefsing upp á 14 ára fangelsi og suma ætti aldrei að láta lausa,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, kennir hins vegar niðurskurði ríkisstjórna Íhaldsflokksins á sviði löggæslu, fangelsismála og félags- og geðheilbrigðismála um árásina.