Donald Trump Bandaríkjaforseti segist geta unnið með forsætisráðherra Bretlands, hver svo sem hann verður að loknum þingkosningum 12. desember. Trump hyggst ekki skipta sér af kosningunum með neinum hætti þar sem hann „vill ekki flækja hlutina“.
Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi forsetans í Lundúnum í dag en hann er í þriggja daga heimsókn í Bretlandi vegna fundar í tilefni 70 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins (NATO). Trump segist vera aðdándi Brexit og segir hann Boris Johnson forsætisráðherra hæfan í sínu starfi. Trump segist hins vegar geta hugsað sér að eiga í samskiptum við hvern sem er.
Aðspurður hvort hann gæti hugsað sér að vinna með Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, verði hann forsætisráðherra, svaraði Trump: „Ég get unnið með hverjum sem er. Það er mjög auðvelt að vinna með mér.“
Síðar í dag mun Trump halda til Buckingham-hallar í boði Elísabetar Englandsdrottningar ásamt öðrum þjóðarleiðtogum og búist er við að hópur mótmælenda safnist þar saman.
Trump segist ætla að hitta Johnson á næstu dögum en óljóst er hvort um formlegan fund verður að ræða.