Fjölskylda hryðjuverkamannsins Usman Khan, sem stakk tvo til bana á London-brúnni á föstudag, kveðst vera „sorgmædd og í áfalli“ vegna málsins. Hún fordæmir aðgerðir Usman sem var að endingu skotinn til bana af lögreglu.
Fjölskyldan sendi ættingum þeirra sem fórust samúðarkveðjur og vonast til þess að þeir sem særðust nái sér að fullu.
Saskia Jones og Jack Merritt létust í árásinni. Þau voru starfsfólk á ráðstefnu um endurhæfingu fanga en Khan hafði hlotið dóm fyrir hryðjuverk en var sleppt úr haldi í desember í fyrra.
„Við fordæmum árásina og sendum fjölskyldum fórnarlambanna samúðarkveðjur,“ sagði í yfirlýsingu fjölskyldunnar sem bað enn fremur um frið frá ágangi fjölmiðla.