Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg segir að fullorðið fólk eigi að hætta að reita yngri kynslóðina til reiði vegna hnattrænnar hlýnunar. Þetta sagði Greta meðal annars við komuna til Lissabon í Portúgal fyrr í dag eftir þriggja vikna siglingu yfir Atlantshafið.
„Fólk vanmetur máttinn sem reið ungmenni hafa,“ sagði Svíinn við fréttafólk þegar hún stóð á fastalandinu í Portúgal en hún heldur þaðan til Madrídar til að taka þátt í Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25.
Fréttamaður sagði að mörgum fullorðnum þætti sem hún væri alltaf reið. „Við erum reið og pirruð og ástæðurnar fyrir því eru góðar,“ sagði Greta.
„Ef fólk vill ekki að við séum reið ætti það að hætta að reita okkur til reiði,“ bætti hún við.