Flest sönnunargögn benda til þess að rík ástæða sé til að ákæra Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir embættisbrot að því er fram kemur í skýrslu leyniþjónustunefndar fulltrúardeildar Bandaríkjaþings.
Vitnaleiðslur hafa undanfarnar vikur staðið yfir í fulltrúadeild Bandaríkjaþings vegna rannsóknar þingsins á embættisverkum forsetans en Trump er sagður hafa þvingað Volodymir Zelenskí Úkraínuforseta í lok júlí til verka sem komu Trump vel.
Í skýrslunni, sem er 300 blaðsíður, kemur meðal annars fram að Trump hafi ógnað öryggi þjóðarinnar, sett pólitíska hagsmuni ofar hagsmunum Bandaríkjanna og reynt að grafa undan forsetakosningunum.
Skýrslan verður notuð til að ákveða hvort leyniþjónustunefndin muni senda málið til dómsmálanefndar og þá í kjölfarið hvort Trump verði ákærður fyrir embættisbrot í starfi.