Donald Trump Bandaríkjaforseti á að láta af embætti vegna embættisgjörða sinna. Á því leikur enginn vafi. Þetta er mat þriggja lagaprófessora á sviði stjórnskipunarréttar sem komu fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Fjórir fræðimenn komu fyrir nefndina, þrír voru boðaðir af demókrötum og sá fjórði af repúblikönum sem sagði gjörðir Trump vissulega ámælisverðar en þær ættu ekki að kosta hann embættið.
Fræðimennirnir voru kallaðir á fund dómsmálanefndarinnar í kjölfar skýrslu sem demókratar í leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins birtu í gær, þar sem fullyrt er að Trump hafi brotið af sér í embætti. Skýrslan er afrakstur tveggja mánaða rannsóknar nefndarinnar á gjörðum forsetans og fylgismanna hans í samskiptum við stjórnvöld í Úkraínu og þykir demókrötunum algjörlega ljóst að forsetinn hafi misnotað embætti sitt til þess að hagnast sjálfur pólitískt á því.
„Ef það sem við erum að tala um er ekki embættisbrot þá telst ekkert vera embættisbrot,“ sagði lögspekingurinn Michael Gerhardt.
Dómsmálanefndinni hefur verið falið það verkefni að taka afstöðu til þess hvort mæla eigi með eða gegn ákæru á hendur forsetanum til embættismissis. Ef það verður niðurstaðan kemur það í hlut öldungadeildarinnar, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, að ákveða hvort Trump verði steypt af stóli.
„Við getum ekki beðið eftir kosningum til að takast á við þessa krísu,“ sagði Jerrold Nadler, formaður nefndarinnar og benti á að Trump hefði reynt að nýta sér utanríkisstefnu Bandaríkjanna til að fá erlent ríki til að hafa áhrif á komandi forsetakosningar og hann gæti reynt slíkt hið sama áður en langt um líður.