Neita því að vinna til sjötugs

Slökkviliðsmenn tóku þátt í mótmælum í borginni Marseille í suðurhluta …
Slökkviliðsmenn tóku þátt í mótmælum í borginni Marseille í suðurhluta Frakklands. AFP

Umfangsmiklar verkfallsaðgerðir í Frakklandi hafa lamað stóran hluta landsins í dag. Flestum skólum hefur verið lokað, auk þess sem samgöngkerfi landsins er í lamasessi. 

Ákveðið hefur verið að verkfallið standi yfir til mánudags.

Um 90% af hraðlestunum TVG eru ekki starfrækt. Auk þess aflýsti Air France 30% af innanlandsflugferðum sínum og 15% af styttra millilandaflugi.

Þúsundir manna tóku þátt í mótmælagöngum í hinum ýmsu borgum áður en tvenn stór mótmæli fara fram í París.

AFP

„Fólk er búið gera áætlanir varðandi daginn í dag og morgundaginn en ég hef miklar áhyggjur af mánudeginum. Þá byrja aðalvandamálin,“ sagði starfsmaður lestarfyrirtækisins SNCF á lestarstöðinni Montparnasse í París.

Frá mótmælum í París í dag.
Frá mótmælum í París í dag. AFP

Verkalýðsleiðtogar hafa heitið því að halda mótmælum sínum áfram nema Macron Frakklandsforseti hætti við áform sín varðandi eftirlaun. Áformaðar breytingar á vinnumarkaði snúast um að fólk er skyldað til að fara síðar á eftirlaun en áður eða þarf að taka á sig skerðingu á eftirlaununum.

„Þetta á eftir að hafa áhrif á alla, ekki bara hluta þjóðarinnar,“ sagði Franck, 46 ára verkamaður hjá bílaframleiðandanum PSA sem býr til Peugeot og Citroen.

„Enginn getur hugsað sér að þurfa að vinna þangað til hann er sjötugur,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert