Vilja slíta viðskiptatengsl við Ísland

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, er maðurinn á …
Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, er maðurinn á bak við Samherjaskjölin. Skjáskot/Kveikur

Samtökin Angola Reflection Platform hafa sent íslenska sendiherranum sem sér um landið bréf þar sem óskað er eftir því að íslensk stjórnvöld hætti viðskiptum við Angóla þar til komist hefur verið til botns í Samherjaskjölunum.

Greint er frá þessu í erlendum fréttamiðlum. Þar er farið yfir málið og meintar mútur Samherja í Namibíu raktar og bent á tengslin við Angóla og norska bankann DNB.

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í París, sem sér um Angóla, staðfestir að erindi frá samtökunum hafi borist sendiráðinu í gær. Það hafi verið framsent utanríkisráðuneytinu.

Kristján segir enn fremur að í erindinu sé óskað aðstoðar íslenskra stjórnvalda við að uppræta spillingu í Angóla. Hann vill meina að samtökin leggi ekki til að viðskipti milli ríkjanna verði stöðvuð og bendir á að þau séu sáralítil.

Angóla er nágrannaríki Namibíu.
Angóla er nágrannaríki Namibíu. Kort/Google

Samtökin vilja að öllum viðskiptatengslum milli Íslands og Angóla verði slitið í bili á meðan komist er til botns í málinu.

Enn fremur kemur fram að án stuðnings alþjóðasamfélagsins muni Angóla ekki ná að slíta sig frá kerfisbundnum þjófnaði á þarlendum auðlindum.

Samtökin óttast að ekkert verði gert í málinu í Angóla, ólíkt því sem gert hefur verið í Namibíu þar sem stjórnmálamenn hafa þurft að svara fyrir málið og eignir þeirra frystar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka