Athafnamaðurinn og forstjóri Tesla, Elon Musk, hefur verið sýknaður af milljarða bótakröfu breska kafarans Vernon Unsworth. Kviðdómur í Los Angeles komst að þessari niðurstöðu fyrir skemmstu.
Unsworth stefndi Musk og krafðist 190 milljóna Bandaríkjadala, rúmlega 23 milljarða króna, í skaða- og refsibætur eftir að Musk kallaði hann barnaníðing (e. pedo guy) á samfélagsmiðlinum Twitter. Musk baðst afsökunar á þeim ummælum en skömmu síðar kallaði hann Unsworth aftur barnaníðing í bréfi til fjölmiðla.
Málflutningi lauk nú fyrr í kvöld og það tók kviðdóm ekki nema tæplega klukkustund að komast að niðurstöðu. Niðurstaðan var sú að ummæli Musk væru ekki bótaskyld.
Ummæli Musk féllu eftir að Unsworth gerði grín að áætlun hans um að bjarga 12 ungum fótboltastrákum úr neðansjávarhelli í Tælandi í fyrra. Musk hafði boðist til að aðstoða við björgunaraðgerðir með því að leyfa björgunaraðilum að nota lítinn kafbát.
Sú aðstoð var afþökkuð og síðar sagði Unsworth, sem kom að björgun drengjanna, að kafbáturinn hefði „ekkert gagn getað gert“ við þær aðstæður sem voru á vettvangi. Unsworth sagði ennfremur að tillaga Musk hefði verið uppátæki til að vekja athygli á honum sjálfum og sagði Musk að „stinga kafbátnum þar sem það meiddi“.