Þrír menn myrtir í bandarískri herstöð

Árásin átti sér stað inni í kennslustofu í flotastöðinni.
Árásin átti sér stað inni í kennslustofu í flotastöðinni. AFP

Hermaður frá Sádi-Arabíu, sem var við þjálfun í flotastöð bandaríska hersins í Pensacola í Flórída-ríki, myrti þrjá og særði átta til viðbótar með skammbyssu í dag. Árásarmaðurinn var skotinn til bana, en árásin átti sér stað inni í kennslustofu í flotastöðinni.

Árásin átti sér stað snemma í morgun að staðartíma, um hádegisbil að íslenskum tíma. Þetta er önnur skotárásin sem á sér stað í bandarískri herstöð í vikunni, en á miðvikudag skaut bandarískur sjóliði tvo starfsmenn til bana áður en hann stytti sér sjálfur aldur í Pearl Harbour-herstöðinni á Havaí.

Salman Sádakonungur hefur fordæmt árásina.
Salman Sádakonungur hefur fordæmt árásina. AFP

Salman Sádakonungur hefur þegar haft samband við Donald Trump Bandaríkjaforseta til þess að fordæma árás hermannsins. Trump hefur sagt fjölmiðlum að Salman hafi komið því skýrt til skila að árásarmaðurinn hafi alls ekki endurspeglað tilfinningar Sáda, „sem elska bandarísku þjóðina.“

Samkvæmt frétt BBC af málinu er málið til rannsóknar hjá sjóhernum, sem mun ekki veita neinar upplýsingar um það hverjir það voru sem létust í árásinni fyrst um sinn.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert