Breski kafarinn Vernon Unsworth, sem hefur stefnt Elon Musk, athafnamanni og forstjóra Tesla, fyrir meiðyrði, krefst þess að Musk greiði honum 190 milljónir Bandaríkjadala í skaða- og refsibætur eftir að Musk kallaði hann barnaníðing á samfélagsmiðlinum Twitter. Upphæðin samsvarar rúmlega 23 milljörðum íslenskra króna.
Lögmaður Unsworth, Lin Wood, segir að ef að Musk verður dæmdur til að greiða skjólstæðingi sínum upphæðina myndi það koma í veg fyrir að Musk „plantaði kjarnorkusprengju í lífi annars einstaklings“ en að sama skapi væri hún ekki nógu há til að hafa alvarleg áhrif á fjárhag milljarðamæringsins.
Wood sagði ennfremur Í lokaávarpi sínu fyrir dómi í Los Angeles í dag að Musk væri „forríkur eineltisseggur“ sem hefði snúið lífi Unsworth á haus með ummælum sínum.
Ummæli Musk féllu eftir að Unsworth gerði grín að áætlun hans um að bjarga 12 ungum fótboltastrákum úr neðansjávarhelli í Tælandi í fyrra. Musk hafði boðist til að aðstoða við björgunaraðgerðir með því að leyfa björgunaraðilum að nota lítinn kafbát.
Sú aðstoð var afþökkuð og síðar sagði Unsworth, sem kom að björgun drengjanna, að kafbáturinn hefði „ekkert gagn getað gert“ við þær aðstæður sem voru á vettvangi. Unsworth sagði ennfremur að tillaga Musk hefði verið uppátæki til að vekja athygli á honum sjálfum og sagði Musk að „stinga kafbátnum þar sem það meiddi“.
Musk svaraði þeim ummælum á Twitter og kallaði Unsworth í leiðinni barnaníðing (e. pedo guy). Skömmu síðar baðst hann þó afsökunar á ummælum sínum en kallaði Unsworth svo aftur barnaníðing í bréfi sem hann sendi fjölmiðlum.
Fyrir dómi baðst Musk afsökunar á ummælum sínum en segir ætlun sína ekki hafa verið að vega að æru Unsworth heldur hafi hann verið að svara móðgunum hans. Þá hefði hann, með því að kalla Unsworth „pedo guy“, ekki verið að kalla hann barnaníðing heldur væri þetta hugtak eða slanguryrði sem væri oft notað sem móðgun í Suður-Afríku þar sem Elon Musk ólst upp.