Ung indversk kona, fórnarlamb nauðgunar, lést í gær á spítala í Delí. Fimm menn hafa verið handteknir fyrir að ráðast á konuna og kveikja í henni á fimmtudag, er hún var á leið í dómsal að bera vitni gegn nauðgurum sínum, sem voru tveir talsins.
BBC greinir frá þessu. Fjölskylda konunnar hyggst sækja mál hennar af fullum þunga að henni látinni og segir systir konunnar við BBC að hún vilji að mennirnir sem nauðguðu henni verði teknir af lífi.
Dánarorsök konunnar var hjartaáfall, en hún var með alvarleg brunasár á um 90% líkamans.
Nauðganir og annað kynferðisofbeldi gegn konum hafa verið í brennidepli á Indlandi undanfarin ár, en ekkert virðist benda til þess að tíðni slíkra árása fari minnkandi. Samkvæmt opinberum tölum skráði lögregla 33.658 nauðgunarmál árið 2017, eða 92 mál á degi hverjum að meðaltali.